Valur komst í gær í 8-liða úrslit Poweradebikarkeppninnar í kvennaflokki eftir dramastískan sigur á Njarðvík, ríkjandi bikarmeisturum. Lokatölur voru 66-65 fyrir Val þar sem lokaskot Lele fyrir sigri Njarðvíkur geigaði. Grænar vildu fá villu í þessu lokaskoti en ekkert var dæmt. Karl West náði þessari lokasókn á myndband:
 

Leiklýsing:
 
Hvorugt liðið byrjaði leikinn vel og mikið af mistökum sáu dagsins ljós hjá báðum liðum, en Albert Auguste skoraði fyrstu tvö stigin í leiknum fyrir Val. Valsliðið leiddi 6-0 þegar 6.30 voru eftir af 1. leikhluta. Njarðvík skoraði ekki fyrstu stig sín fyrr en 5.15 voru eftir af leikhlutanum þegar Lele Hardy skoraði úr tveimur vítaskotum og staðan 11-2 fyrir Val þegar Unnur Lára setti þrist og 4.20 eftir. Valsliðið var með forystu 17-6 eftir fyrsta leikhluta og Njarðvík aðeins skorað eina körfu í leikhlutanum, 4 stig komu af vítalínunni. Allt stefndi í öruggan sigur Valsliðsins sem þrátt fyrir mýmörg mistök var með örugga forystu.
 
Í öðrum leikhluta var enn mikið um mistök já báðum liðum en Valsliðið var alltaf aðeins á undan og skorar fyrstu fjögur stigin í leikhlutanum og leiddi 21-6 þegar Lele Hardy skorar fyrir Njarðvík. Njarðvík fór í svæðisvörn og virtist Valsliðið eiga í talsverðum erfiðleikum með að leysa hana og Njarðvík skorar 10  stig gegn 6 Valskvenna og staðan orðin 27-18 þegar 3.40 eru eftir af leikhlutanum. Liðin skiptast á körfum það sem eftir lifir fyrri hálfleiks og staðan 31-21 í hálfleik fyrir Val. Enn er ekkert sem gefur til kynna annað en að Valsliðið fari með öruggan sigur af hólmi. Athygli vakti að átta leikmenn Vals skoruðu í fyrri hálfleik en aðeins 4 leikmenn Njarðvíkur, þar sem Lele Hardy er allt í öllu.
 
Síðari hálfleikur hófst á því að Aníta Carter Kristmundsdóttir meiddist og fór af velli og kom ekki meira við sögu í leiknum. Njarðvíkurliðið lét þetta ekki á sig fá og spiluðu ákveðna vörn sem Valsliðið átti í basli með. Njarðvík saxar smátt og smátt á forystu Valsliðsins og þegar 7.30 eru eftir af 3. leikhuta hafa þær minnkað muninn í 5 stig 33.28. Sá munur var enn fjórum mínútum seinna nú 37-32, og hafði dæmið snúist við, Valsliðið virðist fyrirmunað að skora. Njarðvík keyrir upp hraðann en Valsliðið finnur enga lausn á sterkri vörn Njarðvíkinga en freista þess að skora þriggja stiga körfu með engum árangri, Valur tók m.a. sjö þriggja stiga skot í röð og hitti úr engu!  Lele Hardy og Ásdís Vala Freysdóttir setja sinn þristinn hvor og koma Njarðvík yfir 37-39 en Ragna Margrét svarar með frákasti og körfu og Hallveig Jónsdóttir skorar góða körfu og kemur Val yfir á ný 41-39 í lok 3. leikhluta. Njarðvík keyrði upp hraðann í þriðja leikhluta og lék firnasterka vörn og uppskáru eftir því og unnu 3ja leikhluta 10-18.
 
Lele Hardy settti þrist í upphafi 4. leikhluta og kom Njarðvík aftur yfir 41-42. Alberta Aguste jafnar leikinn í 44-44, Valsliðið skiptir í svæðisvörn og þá dettur botninn aðeins úr leik Njarðvíkinga og Valsliðið nær góðu áhlaupi og skorar 15 stig gegn 4 stigum Njarðvíkinga og breytir stöðunni úr 42-44 í 59-48 og sigurinn blasti við Valsliðinu. Njarðvíkurstúlkur voru á öðru máli og eftir að Guðbjörg Sverrisdóttir setti þrist og kemur Val í 62-51 setja Svava og Lele Hardy sinn hvorn þristinn og skyndilega er munurinn eingöngu 6 stig, 62-56 og 2 mínútur eftir af leiknum. Erna Hákonardóttir setur þrist en Unnur Lára svarar fyrir Val og staðan 66-59 þegar 1.06 er eftir af leiknum og Njarðvík tekur leikhlé. Lele skorar fyrir Njarðvík og stela síðan boltanum í næstu sókn Vals og skora, staðan orðin 66-61 og Valur tekur leikhlé þegar 23.5 sekúndur eru eftir. Þriggja stiga skot geigar hjá Val, brotið er á Salvöru Sævarsdóttur (skotréttur) sem minnkar muninn í 3 stig 66-63 og 21 sekúnda eftir. Valsliðið tekur aftur leikhlé og kemur svo inn á völlinn og ótímabært þriggja stiga skot geigar og Lele Hardy brunar fram og Alberta Auguste brýtur á henni í skoti og óíþróttamannsleg villa er dæmd þannig að Njarðvík fær 2 vítaskot og boltann þegar 8 sekúndur eru eftir. Lele hittir úr báðum vítunum og fær síðan boltann úr innkastinu og fer í stutt stökkskot en hittir ekki, sigur Vals því staðreynd 66-65. 
 
Leikurinn var ótrúlega sveiflukenndur og í raun ótrúlegt að Njarðvíkurliðið náði að gera leikinn spennandi í síðari hálfleik. Valsliðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og eru síðan með unnin leik í höndunum í 4. leikhluta en tókst næstum að kasta frá sér sigrinum í leiknum. Þrautsegja og barátta Njarðvíkurliðsins dugði næstum til að stela sigrinum á lokasekúndunum en lukkan var ekki þeirra megin í þetta sinn og Valur því komið í 8 liða úrslit Poweradebikarkeppni KKÍ 2012-2013 en ríkjandi bikarmeistarar duttu út
 
Umfjöllun/ Hannes Birgir Hjálmarsson Vodafonehöllin að Hlíðarenda
Mynd/ Torfi Magnússon – Myndasafn frá leiknum eftir Torfa
 
Valur-Njarðvík 66-65 (17-6, 14-17, 10-16, 25-26)
 
Valur: Unnur Lára Ásgeirsdóttir 13/8 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 12/7 fráköst, Alberta Auguste 11/12 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 7/6 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 7/4 fráköst/5 stolnir, María Björnsdóttir 4/4 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 4/4 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 4, Þórunn Bjarnadóttir 4/6 fráköst, Sara Diljá Sigurðardóttir 0, Sóllilja Bjarnadóttir 0, Kristín Óladóttir 0.
 
Njarðvík: Lele Hardy 29/22 fráköst/7 stolnir, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 12/5 fráköst, Svava Ósk Stefánsdóttir 8/6 fráköst, Ásdís Vala Freysdóttir 7, Erna Hákonardóttir 3, Aníta Carter Kristmundsdóttir 2, Salbjörg Sævarsdóttir 2/8 fráköst/3 varin skot, Eyrún Líf Sigurðardóttir 2, Sara Dögg Margeirsdóttir 0, Ína María Einarsdóttir 0, Eygló Alexandersdóttir 0, Emelía Ósk Grétarsdóttir 0.