Þórsarar voru nýliðar í efstu deild og spútniklið hennar síðasta keppnistímabil. Það kemur því engum á óvart að þeir eru með sterkt lið í ár og svo sannarlega verðugir andstæðingar. Það fór þó svo í kvöld að heimamenn náðu ekki að veita þeim mikla keppni nema rétt aðeins í fyrsta leikhluta.
 
Þórsarar voru skrefinu á undan í öllum aðgerðum og léku vel skipulagðan, árangursríkan liðsbolta á báðum endum vallarins. Leikhlutarnir fóru 25:32, 15-36, 19-29 og svo 25-31. Niðurstaðan yfirburða sigur Þórs 84:128 í leik sem náði því aldrei að verða spennandi.
 
KFÍ lét Chris M. Williams fara í upphafi vikunnar og hafa ekki enn fyllt í skarð hans. Það kann að hafa haft eitthvað að segja og vonandi að nýr leikmaður finnist fljótt sem uppfyllir betur væntingar þjálfara og áhangenda liðsins. Þegar lið fær á sig 128 stig á heimavelli þarf augljóslega að herða upp varnarleikinn. Í sóknarleiknum heldur KFÍ sig við þá áætlun að leika án formlegs leikstjórnanda og virðast liðin í Dominos deildinni kunna svör við því. Það er einnig vandamál þegar atvinnumenn í íþróttinni virðast ekki hafa nokkrar áhyggjur af atvinnuöryggi. Mirko og Kristján Pétur voru nokkuð sprækir í sóknarleiknum en kannski gladdi áhorfendur einna mest innkoma 15 ára leikmanns, Hauks Hreinssonar. Hann lék síðustu tæplega átta mínútur leiksins og var ekki að sjá á honum að þetta væri frumraun í meistaraflokki, hvað þá Dominos deildinni! Það er því ærið verk að vinna hjá liðinu og verður spennandi að sjá hvaða lausnir þeir mun finna. Varla ætlar KFÍ að bjóða stuðningsfólkinu upp á svona leiki í allan vetur.
 
Gestirnir frá Þorlákshöfn léku allan leikinn eins og sá sem valdið hefur. Réðu ferðinni og dálítið erfitt að taka einhvern einn út fyrir sviga. Benjamin Smith er gríðarleg 3ja stiga skytta og var með 67% nýtingu úr þeim í kvöld (6/9). Darri Hilmarsson er líklega einn iðnasti leikmaður deildarinnar og er þeirrar gerðar að allir þjálfarar vildu einræktað eintak í sitt lið. Grétar var mjög sterkur og skapaði mikil vandamál fyrir KFÍ í teignum á báðum endum vallarins. Guðmundur, Robert, Baldur og Darrell fylla svo enn frekar þennan þétta hóp sem Benedikt hefur úr að spila. Það er ef til vill ótímabært en engu að síður ætla ég að fullyrða hér, að það kæmi á óvart ef Þórsarar fara ekki langt í úrslitakeppninni í vor.
 
KFÍ: Kristján Pétur Andrésson 24, Mirko Stefan Virijevic 15/10 fráköst, Bradford Harry Spencer 13/1 frákast, Momcilo Latinovic 10, Pance Ilievski 7, Leó Sigurðsson 6, Haukur Hreinsson 4, Óskar Kristjánsson 3/6 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 2/4 fráköst, Hákon Ari Halldórsson 0.
 
Þór Þorlákshöfn: Benjamin Curtis Smith 25/6 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 19/9 fráköst, Darri Hilmarsson 18, Guðmundur Jónsson 17/8 fráköst, Robert Diggs 14/5 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 13, Darrell Flake 11/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 7, Þorsteinn Már Ragnarsson 4.
 
Dómarar: Halldór G. Jensson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Sigmundur M. Herbertsson.
 
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson