Fjósið var að sjálfsögðu fullsetið þegar Suðurnesjapiltar úr Grindavík mættu í heimsókn í kvöld.  Skallarnir voru taplausir á heimavelli í deildinni fyrir leikinn og áttu augljóslega erfiðan leik fyrir höndum gegn sjálfum Íslandsmeisturunum. Páll Axel Vilbergsson var að mæta sínum gömlu liðsfélögum og vinum og hann átti sannarlega eftir að gera þeim nokkrar skráveifur. Áhorfendur fylgdust með af gjörhygli í kvöld og þurftu að hafa sig alla við því æsingurinn var mikill í báðum liðum.  Haminn Quiantance var tæpur vegna meiðsla í nára fyrir leikinn og óvíst hvort hans nyti við. Sjúkraþjálfarateymi liðsins náði þó að tjasla honum saman og hann var tilbúinn í slaginn er flautað var til leiks.
 
Bæði lið byrjuuðu leikinn af miklum krafti sóknarlega og skoruðu til skiptis og nánast í hverri sókn. Gestirnir voru þó ávallt skrefi á undan og leiddu lengstum. Fátt bar þó til tíðinda í leikhlutanum nema þá helst að undirritaður lenti undir Pál Axel er hann barðist um boltann hjá hliðarlínunni, enda Fjósið fremur smátt í sniðum og lítið pláss til athafna utan vallar.  Grindjánar leiddu að leikhlutanum loknum 27-29 eftir að Davíð Ásgeirsson hafði smellt einum flautuþrist.  Borgnesingar byrjuðu 2.leikhlutann af miklum krafti og komust fljótlega yfir með þrist frá Medlock. Q var hvíldur snemma í leikhlutanum og einnig Medlock. Við það riðlaðist leikur heimamanna talsvert og Grindvíkingar komust yfir, en náðu ekki að nýta sér brösugan leik Borgnesinga til fulls.  Er þeir félagar Medlock og Dreadlokk komu inn aftur skánaði leikur Skalla til muna og Q lék á als oddi. Staðan í leikhléi 54-50 og bændur nokkuð ánægðir með sína menn.  Sigurður Þorsteinsson fékk snemma 3 villur í liði gestanna og Fjósamenn náðu að nýta sér bitleysi hans eftir það.  
 
Spennustigið var gífurlega hátt í seinni hálfleik. Menn virtust uppveðraðir og dómararnir leyfðu miklar snertingar. Þetta fór töluvert í skapið á öðruhverjum manni og rúmlega það.  Borgnesingar leiddu áfram, naumlega þó eða þar til Orri skoraði 5 stig í röð og kom sínum mönnum í 9 stiga forystu 70-61.  Staðan fyrir loka leikhlutann var 70-63 og heimamenn enn fullir bjartsýni á að geta lagt Íslandsmeistarana að velli.  
 
Ótrúlegar lokamínútur
 
Skallagrímsmenn héldu höfði framan af 4.leikhluta,  þó verulega væri farið að draga af Quiantance vegna meiðslanna.  Heimamenn leiddu 77-69 er 6 mínútur lifðu leiks og 79-77 þegar 3 mínútur voru eftir.  Þá fór af stað atburðarás sem minnti helst á farsa eftir Dario Fo. Gífurleg harka færðist í leikinn og dómararnir dæmdu minna en áður.  Menn æstust enn meira og allt var á suðupunkti.  Medlock setti 2 víti og staðan 86-83 þegar 1:05 var eftir af leiknum.  Þá setti Sigurður Þorsteins niður 2 stig og fékk víti að auki sem hann nýtti, eftir að Medlock fékk sína 5. villu.  Borgnesingar halda í sókn en missa boltann og Jóhann Árni kemur meisturunum í 86-88.  Borgnesingar halda aftur í sókn og Q er við það að setja niður sniðskot þegar brotið virtist harkalega á honum, en ekkert dæmt.  
 
Borgnesingar brjóta strax og Pálmi þjálfari lætur heyra vel í sér og uppsker tæknivillu að launum.  Grindvíkingar fá fullt af vítum.  Reyndar svo mörg og æsingurinn var svo mikill að dómararnir virtust fipast við það og mikil reikistefna varð í kjölfarið.  Gestirnir settu niður slatta af vítum og innsigluðu sigurinn 86-93.  Heyrðist sagt í stúkunni að þarna væri atvik sem væri keimlíkt því er brotið var á Justin Shouse á lokasekúntum í leik Stjörnunnar og Grindavíkur í úrslitakeppninni s.l vor.  
 
Borgnesingar áttu flottan leik í fyrri hálfleik, en fataðist verulega flugið í þeim síðari.  Sérstaklega þegar fór að draga af Quiantance.  Grindvíkingar virtust lengi að ná áttum í leiknum og komast almennilega í takt við hann. Virtist oft skorta uppá örlitla einbeitingu hjá þeim til að komast á almennilegt skrið.  Þeir höfðu þó það sem til þurfti í lokin og lönduðu sigri.  Það er ekki alltaf spurt um sanngirni í íþróttum.  Það lið vinnur sem skorar fleiri stig eða mörk.  
 
Enn eina ferðina var Q með suddalega tölfræðilínu, og það þrátt fyrir að vera bara á hálfum hraða 23 stig, 15 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 varin skot.  Undirritaður bíður eftir því að hann nái svonefndri 5×5 línu, þ.e yfir 5 í 5 tölfræðiþáttum sem er afar fátítt, en gæti gerst er hann verður orðinn heill heilsu.  Páll Axel átti flotta spretti í kvöld sem og þeir Sigmar,  Orri og Trausti.  Hjá Grindavík var Zeglinski frábær og skilaði þrefaldri tvennu 25 stig, 11 stoðir og 10 fráköst.  Broussard var geysi öflugur með 23 stig og þeir Jóhann Árni og Siggi stigu vel upp í lokin.
 
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson