Leikur kvöldsins var seinni viðureign Snæfells og KFÍ í Lengjubikarnum. Með sigri gátu gestirnir tryggt sig í úrslitakeppni og því til mikils að vinna. Snæfell hefur spilað mjög vel í vetur og eru í efsta sæti Dominós deildarinnar sem stendur. KFÍ liðið hefur ekki gengið vel í undanförnum leikjum og átt undir högg að sækja.
 
KFÍ er gjörbreytt frá því í haust og komnir tveir nýir leikmenn frá Bandaríkjunum. Það voru greinileg batamerki á leik liðsins frá byrjun, enda leiddi KFÍ leikinn fram í þriðja leikhluta. Nýr leikstjórnandi KFÍ, Damier Pitts, stýrði leik sinna manna af öryggi og gaf liðinu nýjar víddir sem ekki hafa sést á Jakanum um nokkurt skeið.
 
Það býr hins vegar mikil reynsla og sigurhefð í liði Snæfells og menn þar á bæ auðvitað ekki tilbúnir að gefast upp án baráttu. Þrátt fyrir að hafa kannski ekki hitt á góðan fyrri hálfleik misstu þeir KFÍ aldrei langt frá sér og söxuðu svo smám saman niður það litla forskot sem heimamenn höfðu náð. Fljótlega í þriðja leikhluta komst Snæfell svo yfir 41:42 og var mjótt á munum næstu 3-4 mínúturnar. Liðin skiptust á um að leiða þangað til Snæfell setti nokkrar körfur sem KFÍ náði ekki að svara og staðan var þá 50:56.
 
Allt virtist mögulegt og KFÍ alveg eins líklegt til þess að halda áfram að velgja toppliðinu undir uggum. Gestirnir voru þó öruggir í sínum aðgerðum og spila árangursríkan bolta. Snæfell leiddi 53:62 fyrir lokaleikhlutann. KFÍ náði ekki að brúa það bil, en auðvitað er það erfitt þegar andstæðingurinn hittir úr 6 af 9 skotum fyrir utan 3ja stiga línuna í lokaleikhlutanum. Snæfell skoraði sem sagt 18 af 25 stigum fjórða leikhluta úr 3ja stiga skotum, sem gerði þeim það frekar auðvelt að verja forskot sitt. Lokastaðan var 74:87 og nokkuð öruggur Snæfellssigur í höfn.
 
Skynsamlega leikinn leikur hjá Snæfellingum og rétt að óska þeim til hamingju. Viss um að þeir hafa meira gaman að því hlutverki að taka þátt í úrslitakeppni Lengjubikarsins á parkettinu á heimavelli. Bestir í liðið þeirra voru þeir Jay Threatt, Asim McQueen og Sveinn Davíðsson sem hefur heldur betur axlað byrðina í undanförnum leikjum.
 
Af KFÍ er það að segja að liðið er gerbreytt í fasi og virðist léttara yfir leik þeirra. Damier Pitts kemur með mikinn ákafa og sjálfstraust í leikinn og virðist Pétur hafa fundið með honum svarið við þeim vanda sem leikstjórnenda staðan var í fyrstu leikjum tímabilsins. Mirko var annars maður leiksins og var virkilega sterkur bæði í vörn og sókn. Þeir fá nú nokkra daga til þess að stilla betur strengi en greinilega á réttri leið.
 
Þróun leiks: 22:15, 17:20, 14:27 og 21:25.
 
KFÍ: Damier Pitts 23/5 fráköst og 4 stoð, Mirko Stefan Virijevic 17/12 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 14/7 fráköst, Tyrone Bradshaw 9/10 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 6/6 fráköst, Hlynur Hreinsson 5/3 fráköst, Leó Sigurðsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Haukur Hreinsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0.
 
Snæfell: Jay Threatt 20/8 stoðsendingar, Sveinn Davíðsson 18, Asim McQueen 13/9 fráköst, Jón Jónsson 12/7 fráköst, Ólafur Torfason 10/7 fráköst, Pálmi Sigurgeirsson 5, Stefán Torfason 4/1 fráköst, Hafþór Gunnarsson 4/4 fráköst, Jóhann Sævarsson 1, Magnús Hjálmarsson 0.
 
Dómarar: Einar Skarphéðinsson og Aðalsteinn Hrafnkelsson.
 
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson