Leikur kvöldsins var liður í Lengjubikarnum sem virðist jafnvel hafa tekið á sig aðra mynd en væntanlega var lagt upp með. Þannig mætti halda að skapast hafi sú hefð að gestirnir fái lánaða búninga, en að öllu gamni slepptu þá var þetta annar heimaleikurinn í röð í þessari keppni þar sem lið gestanna gleymir búningasettinu heima.
 
Það var engu að síður vel skipað lið KR sem keppti í KFÍ búningunum að þessu sinni og fögnuðu margir í stúkunni sérstaklega fyrrum KFÍ liðsmanninum Sveini Blöndal. Í lið KR vantaði að þessu sinni þá Danero Thomas og Finn Magnússon. KFÍ hafði borist liðstyrkur um helgina því mættur var Tyrone Bradshaw.
 
Gestirnir tóku frumkvæðið strax í upphafi og þrátt fyrir góða baráttu heimamanna, héldu þeir henni til leiksloka. KFÍ komst næst því að jafna þegar staðan var 50:51 í þriðja leikhluta en KR átti alltaf svar við áhlaupum þeirra. Samtals voru dæmdar 4 óíþróttamannslegar villur sem settu nokkurn lit á leikinn. Bradford Spencer í KFÍ fékk tvær verðskuldaðar fyrir að stöðva hraðaupphlaup eftir að hann missti manninn frá sér. Seinna brotið framdi hann þegar tæp mínúta var eftir af 3ja leikhluta og staðan var 59:64. Þar með var hann sendur í sturtu og um leið dvínuðu mjög möguleikar KFÍ í leiknum. Eftir að Jón Hrafn fékk svo fimmtu villuna snemma í fjórða leikhluta var eftirleikurinn í raun formsatriði og KR liðið landaði iðnaðarsigri. Leikhlutar fóru 16:24, 20:19, 23:26 og 23:27. Lokastaðan 82:96 fyrir KR.
 
Leikurinn var nokkuð hraður og jafnvel of hraður á köflum þegar liðin misstu boltann að óþörfu með klaufalegum sendingum og töpuðum boltum. Inn á milli var hann þó vel leikinn og ágæt afþreying fyrir áhorfendur. Nokkur framför er merkjanleg í leik heimamanna, sérstaklega í vörninni en vantar þó yfirvegun í sóknarleikinn. Of snemmt að dæma Tyrone af þessum eina leik, enda nýlentur. Jón Hrafn er orðinn lykilmaður í liðinu og sást það best eftir að hann fór útaf með fimmtu villuna. Mirko er mjög mikilvægur fyrir KFÍ og sýndi góða baráttu með 9 fráköstum, en annars höfðu KR yfirburði á því sviði með 49 fráköst á móti 35 heimamanna. Momcilo var mjög öflugur í kvöld með 61,5 skotnýtingu í 2ja stiga skotum, en fjórða villan kom undir lok annars leikhluta. Kannski þarf KFÍ að breyta einhverju til þess að forða því að lykilmenn komi sér í villuvandræði of snemma í leiknum?
 
Maður leiksins var án nokkurs vafa Kristófer Acox sem skoraði 25 stig, tók 9 fráköst og var með rúmlega 83% nýtingu í teignum. Í liði KR eru frábærir leikmenn og gríðarleg orka í t.d. Brynjari, Martin og auðvitað Kristófer Acox. Erlendi leikmaðurinn þeirra, Keagan Bell hafði frekar hljótt um sig. KR náðu góðum sigri að þessu sinni en hann hefði reyndar getað fallið báðum megin hryggjar.
 
KFÍ: Momcilo Latinovic 22/6 fráköst, Bradford Harry Spencer 18, Tyrone Lorenzo Bradshaw 16/4 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 12, Jón Hrafn Baldvinsson 8/5 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 6/9 fráköst, Pance Ilievski 0, Óskar Kristjánsson 0, Leó Sigurðsson 0, Haukur Hreinsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0.
 
KR: Kristófer Acox 25/9 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 20, Martin Hermannsson 17/9 fráköst, Helgi Már Magnússon 12/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ágúst Angantýsson 11/7 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 5/5 fráköst, Keagan Bell 3, Sveinn Blöndal 3, Darri Freyr Atlason 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0.
 
 
Dómarar: Gunnar Andrésson og Jón Bender.
 
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson