Það var ansi hreint gott að komast inn úr nístandi frostinu og inn í sjóðheita Icelandic Glacial-höllina í Þorlákshöfn í kvöld. Bekkirnir voru ansi þétt setnir og spennandi leikur Þórs og Fjölnis á dagskrá. Skemmst er frá því að segja að Þórsarar unnu 92-83 sigur á Fjölnismönnum í jöfnum baráttuleik, þar sem Ben Smith fór algjörlega á kostum í liði heimamanna og skoraði 46 stig.
 
Töluverðar breytingar voru á liði heimamanna frá því leiknum á miðvikudag gegn KR. Robert Diggs hefur kvatt Ísland að sinni og í hans stað er kominn nýr maður alla leið frá Ameríku sem heitir David Bernard Jackson. Einnig var Guðmundur Jónsson fjarri góðu gamni vegna veikinda og munar um minna fyrir Þórsliðið, því GJ er búinn að vera ansi heitur í síðustu leikjum.
 
Fjölnismenn byrjuðu af miklum krafti og komust í 0-7 forystu áður en Þórsarar settu sín fyrstu stig. Annars var leikurinn jafn í fyrri hálfleik, Fjölnismenn voru þó alltaf feti framar og leiddu 47-50 í síðari hálfleik. Varnir beggja liða voru ekki að eiga sinn besta dag og liðin skoruðu auðveldar körfur á báða bóga.
 
Í þriðja leikhluta sigu Þórsarar síðan örlítið fram úr. Ben Smith hitnaði meira en góðu hófi gegnir og bauð upp á nokkrar rosalegar þriggja stiga körfur. Hann keyrði einnig oft með gríðarlegum hraða á varnarmenn Fjölnis sem stundum vissu einfaldlega ekki sitt rjúkandi ráð.
 
Fjórði leikhlutinn var eiginlega bara þægilegur fyrir Þórsara. Fjölnismenn náðu ekki stöðva Smith, hann hélt áfram að raða niður körfum á meðan að enginn í Fjölnisliðinu gerði sig líklegan til að stíga almennilega upp. Forysta Þórsara varð mest 12 stig í leikhlutanum og Ben Smith skoraði öll stig Þórsara, nema síðustu tvö sem hann Darri Hilmarsson setti af vítalínunni.
 
Heilt yfir, ekkert sérstaklega vel leikinn leikur. Mikið af mistökum hjá báðum liðum. Ben Smith átti stórleik og hitti vel úr skotum sínum, en hann var í alltof miklu aðalhlutverki hjá Þórsurum í kvöld, sem ég tel að megi rekja til breytinganna á liðinu. Nýi maðurinn, Jackson, leit ágætlega út, spilaði fína vörn og á eflaust eftir að verða mikilvægur fyrir Þórsara.
 
Stig Þórs: Ben Smith 46/10 fráköst/4 stoðs., Darrell Flake 23/11 fráköst, David Jackson 11/6 fráköst, Darri Hilmarsson 9/3 stolnir, Baldur Þór Ragnarsson 3/10 stoðs.
 
Stig Fjölnis: Sylvester Spicer 21/15 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 16, Árni Ragnarsson 11, Jón Sverrisson 11/8 fráköst/3 stolnir, Paul Anthony Williams 8, Arnþór Freyr Guðmundsson 7, Gunnar Ólafsson 7, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2.
 
 
Mynd/ Davíð Þór
Umfjöllun/ Arnar Þór Ingólfsson