Það voru sprækir drengir úr Kópavoginum sem mættu á Sauðárkrók og náðu að stríða heimamönnum heilmikið en höfðu að lokum ekki erindi sem erfiði, leiknum lauk 87 – 77 fyrir heimamenn.
 
Fyrrum þjálfari Tindastóls, Borce Ilievski var kominn á Krókinn með nýju lærisveinana í Breiðablik. Þrátt fyrir að íbúar Sauðárkróks kunni ágætlega vel við Borce þá vildu áhorfendur ekkert frekar en að Tindastólsmenn myndu halda sýningu og rústa 1. deildarliðinu. Það varð þó alls ekki raunin þar sem Blikarnir reyndust Stólunum erfiður ljár í þúfu.
 
Það er skemmst frá því að segja að Tindastólsliðið lék langt undir væntingum og virtist sem leikmenn héldu að þeir þyrftu ekkert að leggja á sig til að sigur ynnist. George Valentine var besti maður liðsins og átti ófáar troðslurnar, einnig áttu Helgi Rafn og Hreinsi fína spretti.
 
Breiðabliksliðið getur hins vegar gengið með höfuð hátt eftir þennan leik, þeir börðust vel allan leikinn og náðu að velgja Stólunum vel undir uggum. Hraunar Karl Guðmundsson var stórgóður og svo voru Gregory Rice og Atli Örn Gunnarsson einnig mjög fínir.
 
Stig Tindastóls: George Valentine 24/10fráköst, Helgi Rafn 13, Drew Gibson 13, Hreinn 11, Þröstur 10, Helgi Freyr 8, Ingvi 5, Svavar 2 og Arnar 1.
 
Stig Breiðabliks: Hraunar 22, Gregory Rice 20, Atli Örn 12, Pálmi 6, Sigmar 5, Halldór 5, Ægir 5 og Hákon 2.
 
 
Umfjöllun/ Haukur Skúlason