Það voru Snæfell og Tindastóll sem leiddu saman hesta sína í úrslitaleik Lengjubikars karla sem fram í fór í Stykkishólmi. Sannkallaður landsbyggðarslagur.
 
 
 Byrjunarliðin.
Snæfell: Jón Ólafur, Asim McQueen. Sveinn Arnar, Hafþór Ingi, Jay Threatt.
Tindastóll: Drew Gibson, Helgi Freyr, George Valentine, Helgi Rafn, Ingvi Rafn.
 
 
Snæfell komst á fyrstu skrefunum í 7-2 eftir troðslu frá Asim en Tindastóll andaði í hálsmálið og voru skammt undan. Sveinn Arnar tók á sig villur fyrir Snæfell og var kominn með þrjár slíkar eftir fjögra mínútna leik. Hraðinn dempaðist eftir miðjann fyrsta hluta og leikurinn fór einhvert jafnvægi þar sem Snæfell leiddi naumt 20-18 eftir fyrsta leikhluta. Leikmenn voru að dreifa vel framlaginu innan beggja liða og allir tilbúnir í leik sem slíkann.
 
 
Tindastóll jafnaði 23-23 og engar blikur voru á lofti að annað liðið tæki af skarið þar sem varnarleikur beggja liða var með ágætum. Snæfell komst með tilþrifum í 30-23 eftir að Sigurður Þorvaldsson, sem var kominn í Snæfellsliðið að nýju, fleygði sér á eftir boltanum og bjargaði honum í hendur Jay sem smellti þremur og hann kominn með 10 stig en Þröstur Jóhannsson var kominn með 8 stig hjá Tindastóli og var að spila vel ásamt Gibson.
 
 
Jay skellti í 4. þristinn og var óstöðvandi þegar Snæfell komst hægt og bítandi 11 stigum yfir 42-31. Tindastóll náði að rífa sig upp og saxa á en George Valentine var að koma inn í þann hutann 44-40 og staðan var svo 45-44 fyrir Snæfell í hálfleik og heilmikill og skemmtilegur úrslitaleikur í gangi.
 
Jay Threatt var í góðum gír með 18 stig og Asim McQueen bætti við 10 hjá Snæfelli en hjá Tindastóli var Drew Gibson með 11 stig og George Valentine 10 stig.
 
Tindastólsmenn komu sannfærandi eftir hálfleiksræðu Bárðar og með áræðni komust þeir í forystu 48-55 á meðan ekkert gekk hjá Snæfelli, sérstaklega sóknarlega. Snæfell lagaði ekki eins mikið til hjá sér eftir leikhlé og áttu erfitt með að tæta upp muninn en Tindastóll vory tíu stigum yfir 54-64 þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja hluta og Snæfell fór í spjall. Ekki gekk það betur en svo að Valentine fékk ”and1” körfur og Tindastóll náði til flestra bolta sem lausir voru og gengu á lagið með baráttu og komust í 59-72 eftir þriðja fjórðung.
 
Sveinn Arnar fór með hörku í Þröst Leó og uppskar óíþróttamannslega villu og var það hans fimmta. Tindastóll leidd 63-79 og áfram héldu Snæfellsmenn að elta og áttu í erfiðleikum með sterka Stólana. Þegar Nonni Mæju smellti Snæfelli betur í gang með þrist 70-79 svaraði Þröstur með einum slíkum, en Þröstur var að gæla við að vera maður leiksins hjá Tindastóli. 70-82 og Snæfell barðist við að saxa á þegar um fjórar mínútur voru eftir.
 
 
Tindastóll hélt haus og voru lausir við fát fum og leiddu 75-86 þegar mínúta var eftir og brekka fyrir Snæfell að reyna við sigurinn. Ellefu stig skildu liðin af þegar 30 sekúndur voru eftir 81-92. George Valentine kláraði leikinn á háloftatroðslu og Tindstóll sigraði 81-96 og eru Lengjbikarmeistarar 2012.
 
Til hamingju Tindastóll.
 
 
Snæfell: Jay Threatt 22/8frák/8 stoðs. Asim McQueen 17/14 frák. Jón Ólafur 12/12 frák. Pálmi Freyr 9. Sveinn Arnar 8. Hafþór Ingi 7. Ólafur Torfason 5. Sigurður Þorvaldsson 1. Stefán Torfason 0. Tinni Guðmundsson 0. Magnús Ingi 0. Kristófer Sævarsson 0.
 
Tindastóll: Þröstur Leó Jóhannsson 27/6 frák. George Valentine 26/14 frák/6 stoðs. Drew Gibson 16/5 frák/8 stoðs/4 stolnir. Helgi Rafn 16. Svavar Atli 6. Helgi Freyr 3. Ingvi Rafn 2. Sigtryggur Arnar 0/4 frák. Pétur Rúnar 0. Sigurður Páll 0. Hreinn Gunnar 0.
 
Símon B. Hjaltalín