Justin Shouse og Brian Mills fóru fyrir Stjörnunni í kvöld þegar Garðbæingar skelltu ÍR með 20 stiga mun í Ásgarði. Stjarnan situr nú á toppi deildarinnar með Snæfell en Hólmarar hafa betur innbyrðis gegn Garðbæingum. Eric Palm var sprækastur manna hjá ÍR í kvöld en Breiðhyltingar áttu fínar rispur sem þeim tókst illa að viðhalda gegn sterkri vörn heimamanna.
 
ÍR-ingar hófu leikinn með látum, Hreggviður og Palm opnuðu með tveimur þristum áður en heimamenn í Stjörnunni tóku við sér og það hressilega. Garðbæingar svöruðu með 14-0 dembu og breyttu stöðunni í 16-6. Undir lok fyrsta leikhluta kom nýjasti liðsmaður ÍR, Isaac Miles, inn á völlinn og átti lipra spretti. Stjarnan leiddi 25-16 að loknum fyrsta leikhluta en ÍR tók við sér í öðrum leikhluta.
 
Miles stal tveimur boltum í röð og hressti upp á gestina sem þó misstu Stjörnuna frá sér á lokaspretti fyrri hálfleiks og heimamenn leiddu 42-39 í leikhléi. Justin Shouse var kominn með 15 stig í háflleik og þeir Marvin og Brian 10. Hjá ÍR var Nemanja Sovic með 12 stig og Eric Palm 10.
 
Stjörnumenn voru líflegir á upphafsmínútum síðari hálfleiks, Marvin Valdimarsson skellti í þrist og Justin kom með körfu og villu að auki skömmu síðar og heimamenn snöggtum komnir í 52-41. Á meðan virtist Eric Palm einn í liði ÍR um að vera á réttu róli og gestirnir áttu bágt með að prjóna sig í gegnum Stjörnuvörnina, staðan 62-53 að loknum þriðja leikhluta.
 
Eftir sveiflur úr öðrum leikhluta og inn í þann þriðja mátti maður eiga von á sem flestu í fjórða leikhluta en raunin varð önnur. Stjarnan fann taktinn við stýrið og sigldi leiknum örugglega í höfn. ÍR gerði heiðarlega tilraun til að klóra í bakkann og minnkaði muninn í 72-66 en Stjarnan svaraði í sömu mynt og kláraði dæmið með 20 stigum.
 
Garðbæingar litu ljómandi vel út í kvöld, varnarleikurinn með besta móti og annar deildarleikurinn í röð þar sem andstæðingar Stjörnunnar ná ekki upp í 70 stig í Ásgarði. Eric Palm fór fyrir ÍR með 19 stig, fimm þristar en kappinn var 1 af 12 í teignum sem er afleit nýting. Tvennurnar hjá Shouse og Mills voru flottar, Shouse með 26 stig og 13 stoðsendingar og Mills með 21 stig og 13 fráköst. Marvin Valdimarsson bætti svo 17 stigum, 7 fráköstum og 6 stoðsendingum.
 
 
 
Mynd og umfjöllun/ jon@karfan.is – nonni@karfan.is