Hugmyndin kviknaði hjá mér eftir að hafa tekið þátt í og horft á fjölmarga körfuboltaleiki í gegnum tíðina. Í Reykjanesbæ höfum við verið heppin með frábæra sjálfboðaliða sem eru tilbúnir að mæta leik eftir leik og standa vaktina með „kústinn“ eða þvegilinn og hlaupa til þegar dómarar vilja láta þurrka gólfið þegar t.d. sveittir leikmenn detta.
 
Ég hef líka verið á leikjum þar sem dómarnir sjálfir hafa þurft að þerra gólfið vegna þess að enginn annar hefur fengist til þess. Þetta hefur tafið leiki og jafnvel haft neikvæð áhrif á góða stemningu í spennandi leikjum. Þess vegna fór ég að pæla í því hvort ekki væri hægt að útbúa fjarstýrt tæki sem dómarar gætu hreinlega kallað inn á völlinn og þerraði gólfið bæði fljótt og vel. Ég útskýrði þessa hugmynd fyrir Örvari tengdasyni mínum og bað hann um að gera þetta svolítið myndrænna og þá varð þessi mynd til:
 
Ég ræddi við Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóra Keilis á Ásbrú og hann kom mér í samband við kennara og nemendur í tæknifræðinámi Keilis. Eftir að hafa kynnt þeim hugmyndina og spurt hvort hægt væri að smíða svona grip var strax ljóst að ekki væri hægt að kaupa venjulegan fjarstýrðan bíl út í búð og setja þvegla á hann. Til þess þyrfti meiri orku og því varð úr að smíða bíl/tæki frá grunni. Bíllinn þurfti líka að hafa öfluga rafhlöðu sem mundi duga a.m.k. einn körfuboltaleik án þess að fara í hleðslu. Annað atriði var einnig mikilvægt og það var að tækið yrði hannað þannig að það skaðaði hvorki leikmenn né dómara. Þess vegna var ákveðið að hafa það hringlaga með öryggispúða allan hringinn.
 
Kennarar og nemendur Keilis voru mjög áhugasamir um þetta verk og það var mjög skemmtilegt að vinna með þeim. Alls konar útfærslur og lausnir voru ræddar á verkfundum, en þó alltaf með það í huga að svona tæki mætti ekki verða of dýrt í framleiðslu. Ég hafði svo samband við fyrirtækið Þriftækni ehf, sem er í eigu Steinþórs Geirdal og spurði hvort hann væri til í að fjármagna dæmið gegn auglýsingasamningi á tækið. Skemmst er frá að segja að Steinþór var til í þetta og kostaði hann smíðina frá grunni. Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka honum og Keilismönnum fyrir samvinnuna og alla aðstoðina. Vonandi nýtist tækið vel á leikjum í framtíðinni, gerir hann hraðari ( Þerrari fer á rúmlega 14 km. hraða) og jafnvel enn skemmtilegri.
 
Að lokum má kannski geta þess að þetta er önnur uppgötvun mín sem tengist körfubolta. Hin er körfuspjald sem „fer að sofa“ á ákveðnum tilsettum tíma, þ.e hægt er að stilla klukku á körfunni sem lyftir körfuhringnum upp að spjaldinu t.d. kl. 22:00 á kvöldin og þá er bara „game over“. Svo fer hringurinn aftur á sinn stað næsta morgun. Ég kallaði þessa körfu Lokbrá. Hún reyndist á sínum tíma full dýr í framleiðslu, svo það er bara til eitt eintak af henni ennþá.
 
Með körfuboltakveðju,
Stefán Bjarkason
Framkvæmdastjóri
Íþrótta- og tómstundasviðs
Reykjanesbæjar.