Daníel Guðni Guðmundsson lék síðast hérlendis með Stjörnunni þegar liðið mætti KR í lokaúrslitum Íslandsmótsins. Síðan þá hefur hann alið manninn í Svíþjóð og leikur þar samhliða námi í næstefstu deild. Svíinn á það til að vera kurteis segir Daníel sem var leystur út eftir einn sigurleikinn á dögunum með kanilbollum. Hitaeiningar sem Danni má vel við enda rifflaður strákurinn sem þvottabretti.
 
Daníel leikur með IK Eos sem unnið hefur átta fyrstu leiki sína í suðurhluta deildarinnar en henni er skipt upp í norður og suður hluta og 12 lið í hvorum hluta fyrir sig.
 
,,Við vorum að leika gegn liði sem nefnist Sanda, en þeir eru staddir í Huskvarna í Svíþjóð. Fyrirfram átti þetta að vera tiltölulega auðveldur leikur fyrir okkur, sem var svo raunin. Svíinn á það til að vera kurteis og gestrisinn og eftir leik fengum við ljúffengar kanilbollur frá gestgjöfunum, sem við félagarnir kunnum vel að meta. Maður hefur fengið sér þær nokkrar með kaffinu hérna úti enda er þetta lostæti,” sagði Daníel sem átti afmæli á dögunum og var þá einnig leystur út með bakkelsi. Sælkerar ættu því að huga að frama í næstefstudeild í Svíþjóð.
 
Daníel verður svo aftur á ferðinni þann 24. nóvember næstkomandi þegar IK Eos mætir Hoganas Basket á heimavelli en Hoganas hafa unnið fjóra leiki í deild og tapað fjórum á meðan Eos eru eins og áður greinir ósigrarðir.
 
Mynd/ Daníel á ferðinni með IK Eos en myndin er fengin með ,,góðfúslegu” leyfi Daníels.