Tindastóll komst í kvöld í undanúrslit Lengjubikarsins eftir 98-86 ósigur gegn Stjörnunni. Garðbæingum hefði dugað 15 stiga sigur til að komast áfram í keppninni en sigurinn reyndist 12 stig og því komust Stólarnir áfram þrátt fyrir tapið. Eftir góðan fyrri hálfleik voru það heimamenn í Garðabæ sem áttu magnaðan þriðja leikhluta og kláruðu leikinn af öryggi en unnu ekki nægilega stórt til að komast áfram.
 
Skagfirðingar voru mun sprækari í fyrri hálfleik og settu 51 stig á heimamenn í Stjörnunni. George Valentine átti tilþrif fyrri hálfleiksins með ,,alley-up” troðslu og staðan 44-51 í hálfleik gestunum í vil. Drew Gibson og George Valentine voru báðir með 15 stig hjá gestunum í leikhléi en Brian Mills var með 12 og Dagur Kár 11 í liði Stjörnunnar.
 
Það nægði Garðbæingum að fá á sig 51 stig í fyrri hálfleik til að ranka við sér og í síðari hálfleik sýndu Garðbæingar hvers þeir eru megnugir í Ásgarði. Hreinn Gunnar Birgisson kom Tindastól í 51-59 með þriggja stiga körfu en þá hrökk í gang magnaður kafli Stjörnunnar. Stjarnan tók 17-5 kafla með góðri vörn og þeir Marvin og Jovan splæstu í góðar rispur. Staðan að loknum þriðja leikhluta orðin 76-66 fyrir Stjörnuna og spennan farin að magnast en Garðbæingar urðu að vinna leikinn með 15 stiga mun eða meira til að komast áfram.
 
Sigtryggur Arnar og Hreinn Gunnar opnuðu fjórða með tveimur þristum fyrir gestina og minnkuðu muninn í 78-72 en Garðbæingar voru við stýrið. Munurinn ávallt í kringum 10 stig og þegar 20 sekúndur voru eftir kom Marvin Valdimarsson Stjörnunni í 98-84, 14 stig og aðeins stig til viðbótar sem vantaði upp á undanúrslitin fyrir heimamenn.
 
Stólarnir stóðust þó áhlaupið, töpuðu leiknum 98-86, með 12 stiga mun og fögnuðu því í leikslok sæti sínu í undanúrslitum.
 
Garðbæingar áttu afleitan fyrri hálfleik en góðan síðari hálfleik, öfugt farið hjá heimamönnum og skiptu liðin þessu því bróðurlega á milli sín. Þetta var fyrsti tapleikur Tindastóls í Lengjubikarnum þetta tímabilið en liðið er án stiga í Domino´s deildinni, skrýtinn þessi veruleiki.
 
 
Mynd og umfjöllun/ nonni@karfan.is