Viðureign Stjörnunnar og Breiðabliks í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins í kvennaflokki var rétt í þessu að ljúka. Stjarnan hafði betur 72-67.
 
Garðbæingar eru því komnir í 8-liða úrslit keppninnar þar sem Bryndís Hanna Hreinsdóttir var stigahæst í liði Stjörnunnar með 21 stig og 3 fráköst en hjá Breiðablik var Aníta Rún Árnadóttir með 17 stig og 8 fráköst.
 
Þau lið sem komin eru í 8-liða úrslit:
 
Stjarnan, Snæfell, Grindavík, Hamar, Þór Akureyri og KR.
 
Tvö lið eiga enn eftir að komast upp úr 16 liða úrslitum en í dag kl. 16:00 mætast Haukar og Keflavík í Schenkerhöllinni og Valur tekur á móti Njarðvík kl. 18:00 í Vodafonehöllinni.
 
Mynd/ Bikarmeistarar Njarðvíkur mæta í Vodafonehöllina í dag og freista þess að taka þar sitt fyrsta skref í að verja bikarmeistaratitilinn.