Það er alltaf eitthvað spennandi við nýtt NBA tímabil. Eftir gott sumar er fátt betra til að ylja sér við yfir veturinn en háspennu NBA-bolti.
 
Síðasta tímabil í NBA hófst ekki fyrr en á jóladag eftir langar og strangar, svo ekki sé talað um hundleiðinlegar samningaviðræður milli forsvarsmanna tveggja hópa milljarðamæringa: leikmanna og eigenda liðanna. Það er efni í annan pistil en blessunarlega tókst að greiða úr þeirri vitleysu á nokkuð farsælan hátt. Um leið og tímabilið hófst flugu upp getgátur manna um að þetta yrði enn eitt tímabilið sem merkt yrði með stjörnu í bókum NBA deildarinnar – vegna þess að leiknir yrðu aðeins 66 leikir í stað þeirra 82 sem venja er. Meistarar “stjörnu-tímabila” eru litnir hornauga af NBA spekúlöntum. Það þekkja San Antonio Spurs frá 1999, þó þeim hafi í seinni tíð tekist að hrista þann draug af sér með þremur titlum til viðbótar.
 
Miami Heat sigraði NBA deildina á nýliðnu “stjörnu-tímabili” eftir fremur máttlausa mótspyrnu frá Kevin Durant og félögum í Oklahoma City, í fimm úrslitaviðureignum. LeBron James lék eins og andsetin skepna með stórkostlega tölfræði í nánast öllum tölfræðiþáttum og uppskar á endanum hinn heilaga gral allra körfuknattleiksmanna – sinn fyrsta NBA meistaratitil. Margir segja að LeBron hafi jafnvel fengið uppreisn æru eftir þessa úrslitakeppni eftir þráláta brandara og háðsglósur um “þrjá fjórðunga” og dapra spilamennsku á ögurstundu gegn Dallas Mavericks í úrslitunum þar á undan. Má vel vera, en hann á enn langt í land með að efna loforð sitt til Miami borgar um 8 titla. Við sjáum hins vegar í vor, þegar öll kurl eru komin til grafar, hvort þetta verði bara einn “stjörnu-tímabils” titill hjá Miami Heat eða hvort LeBron og félagar haldi áfram að telja upp í átta.
 
Þetta sumar var engin lognmolla í NBA deildinni frekar en áður. Samningaviðræður eigenda og leikmanna sumarið 2010 leiddu af sér enn strangari reglur um leikmannasamninga og þær sektir sem liðin greiða fyrir að fara yfir launaþakið sem deildin setur fyrir hvert tímabil. Fyrir vikið gíruðu mörg lið niður og hentu frá sér stjörnum með bólgna samninga svo hægt væri að skapa svigrum til að hefja enduruppbyggingarfasa. Eitt þessara liða var Atlanta Hawks með Danny Ferry í brúnni með sveðjuna á lofti að tæta í sundur leikmannalista liðsins. Honum tókst að pranga Joe Johnson (sem er frábær leikmaður – þegar hann nennir því) inn á “nýja” liðið í New York borg. Eitt-sinn-þekktir-sem-New-Jersey-Nets fluttu sig yfir Hudson-ána til Brooklyn, sem er hin nýja Manhattan samkvæmt hipsterunum, en þar beið þeirra opinn faðmur Jay-Z og glæný höll sem Barclays bankinn byggði líklegast fyrir ágóðann af LIBOR svindlinu.
 
Joe Johnson var ekki sá eini sem skipti um heimili í sumar. Dwightmare, eða sápuóperan sem fylgt hefur Dwight Howard og barnalátum hans um hvar hann vilji spila, náði tröllvöxnu hámarki seint í sumar þegar Mitch Kupchak, framkvæmdastjóri Lakers, töfraði upp eitt af mögnuðustu skiptum í sögu félagsins þar sem hann sendi húðlatan Andrew Bynum til Sixers og fékk Superman v.2 í staðinn. Enn og aftur sátu Orlando Magic hins vegar eftir í rykinu með sárt ennið, lýkt og raunin var 1996 þegar Shaq gaf þeim langt nef og samdi við Lakers.
 
Annar Lakers leikmaður sem unun er að fylgjast með, en þó ekki fyrir hæfileika inni á vellinum, heldur fyrir trúðslæti og furðurleg uppátæki innan sem utan vallar. Jú, mikið rétt, enginn annar en Ron Artest a.k.a. Metta World Peace, sem fékk einnig viðurnefnið Metta World War eftir olnbogaskotið í hnakkann á James Harden í fyrra. Þar fer kumpáni sem annað hvort er einhver mesti snillingur sem leikið hefur í deildinni eða ofvirkur örviti sem flýgur djúpt undir meðalgreind (þó ég hallist að hinu síðarnefnda). Allt frá því hann stökk upp í stúku í Detroit til að banka á áhorfanda hefur hann séð deildinni fyrir kómískri afþreygingu í bland við spennandi íþróttina.
 
Áðurnefndur James Harden skipti einnig um heimili nú rétt fyrir upphaf deildarinnar. Hann ákvað að spila grjótharðan póker við Sam Presti, framkvæmdastjóra Oklahoma Thunder, sem gaf Harden klukkutíma til að ákveða sig hvort hann vildi kvitta undir fjögurra ára, $54 milljóna framlengingu á samningi eða verða sendur til Houston Rockets í skiptum fyrir Kevin Martin, Jeremy Lamb og skiptimynt. Harden stóð hins vegar fast á sínum $60 milljónum og að sléttum klukkutíma liðnum togaði Presti í gikkinn sem sendi hinn alskeggjaða bakvörð í bögglapósti til Houston. Harden samdi svo um tæplega $80 milljónir fyrir 5 ár við Rockets og er nú annar helmingurinn af einu mest spennandi bakvarðapari deildarinnar, ásamt Jeremy Lin. Menn hlæja að þessu í dag og segja Houston ótvíræðan sigurvegara þessara skipta, en líta verður á þá staðreynd að Presti hagaði málum á þann eina hátt sem mögulegt var með framtíðarhagsmuni liðsins að leiðarljósi. Hefði hann látið undan þrýstingi frá Harden og haldið honum glöðum í liðinu hefði verið orðið ansi þröngt undir launaþakinu fyrir komandi ár. Daryl Morey og félagar í Rockets áttu hins vegar nóg pláss til að gera Harden glaðan dag og gott betur en það.
 
NBA deildin hefur ekki farið varhluta af einræði David Sterns á undanförnum árum. Ítrekaðar ásakanir um afskipti af högum liðanna og stanslausar breytingar á reglum deildarinnar hafa farið í taugarnar á mörgum okkar sem fylgjumst grant með NBA. Stern beitti fáheyrðu neitunarvaldi á síðasta tímabili í fyrirhuguðum skiptum sem hefðu sent Chris Paul frá New Orleans Hornets til Lakers. Hornets-liðið var í þeirri einkennilegu aðstöðu að vera í eign NBA deildarinnar eftir gjaldþrot fyrri eigenda og því hafði Don Stern tökin til að gera þetta. Hornets fengu einnig fyrsta valrétt í nýliðavalinu og völdu einbrúnunginn Anthony Davis, álitlegasta nýliðan í valinu, sem hentaði einkar vel nýja eigendur liðsins sem keyptu liðið í apríl. Í kjölfarið spruttu upp samsæriskenningar um þessar hentugu tilviljanir. Stern er líka óhræddur við að gefa dómurum deildarinnar fullkomið vald til að hafa stjórn á leiknum með ítrekuðum reglubreytingum sem eru sumar hverjar misgóðar. Nú er t.a.m. bannað að steyta hnefann upp í loftið eftir skoraða körfu eða horfa á annan leikmann eftir hafa troðið í andlitið á honum (sem er að mínu mati mannréttindabrot) og margt margt fleira. Ein ný reglubreyting leit dagsins ljós fyrir þetta tímabil en það er réttur deildarinnar til að sekta leikmenn sem verða uppvísi að “floppi” eða leikræna tilburði til að ýkja meint brot andstæðinga. Þetta er að mörgu leyti jákvæð þróun því það er fátt eins óþolandi og að sjá nafntogaða leikmenn fleygja sér í gólfið með tilburðum til að “selja” dómara villuna. Svona reglur eru hins vegar tvíeggja sverð og eins og Blake Griffin (sem mun eflaust greiða væna summu í flopp-sektir í vetur) sagði í haust “fín leið fyrir deildina til að afla tekna”. David Stern tilkynnti nú fyrir skemmstu að hann myndi láta af embætti árið 2014.
 
NBA deildin er engu að síður hafin og er engu líkara en að maður sé staddur í annarri vídd raunveruleikans þar sem New York Knicks leiða austurdeildina taplausir 3-0 og Lakers skrapa botninn á vestrinu 1-3. Einn af þessum þremur sigrum Knicks var furðulega sannfærandi gegn ríkjandi meisturum Miami Heat. Líklega mun þetta þó allt jafna sig þegar líður á tímabilið og hver veit nema gamall blautur draumur David Sterns og Nike um Miami Heat og LA Lakers í úrslitum verði að raunveruleika. Það verður að viðurkennast að slík sería myndi fara í sögubækurnar – hvernig sem færi – með King James á hátindi ferilsins og The Black Mamba á lokaspretti síns.
 
Ég veit alla vega að ég yrði límdur við skjáinn.
 
hordur@karfan.is (@Emmcee23 á Twitter)