Snarpur og feykilega hressandi körfuboltaleikur hófst í Hólminum á milli Snæfells og Hauka Domino´s deild kvenna í kvöld. Mikið var skorað hjá báðum liðum og leikmenn heitir en Alda Leif setti niður tvo þrista sem kom Snæfelli í 14-12 og svo 17-14 eftir að Gunnhildur Gunnars jafnaði fyrir Hauka 14-14.  Snæfell gerði nokkur mistök í sókn á kafla þar sem sendingar voru slakar en varnarlega voru bæði lið svona allt í lagi, ekkert meira. Liðin voru að gera svipaða hluti í að missa og ná boltanum og þrátt fyrir ágæta hittni var ekki stöðugleiki í hröðum sóknum liðanna. Staðan var svo 26-20 fyrir Snæfell eftir fyrsta hluta.
 
Alda Leif var í ham, stal boltum og setti niður stóru stigin á meðan Marlow dældi þeim niður í teignum og Snæfell komst í 33-22 og þær stöllur með 10 stig hvor. Margrét Rósa var virkilega með lífsmarki í leiknum og með mikilli baráttu hennar og Gunnhildar í vörn og sókn, reyndu þær að halda í við Snæfell sem voru 11 stigum yfir 38-27. Alda Leif smellti sínum fjórða þrist niður fyrir 48. stigið á töfluna hjá Snæfelli og voru þær hægt og bítandi að naga Haukastúlkur af sér þegar þær komust í 50-33.
 
Staðan í hálfleik var 50-38 fyrir Snæfell og var Alda Leif komin með 16 stig, Kieraah Marlow 12 og Hildur Björg 10. Siarre Evans var komin með 15 stig og Margrét Rósa 12 stig fyrir Haukastúlkur.
 
Haukastúlkur lögðu sig fram við að saxa á forskot Snæfells og komu sér með þolinmæði nær og nær 57-45 og svo 59-52 og voru öflugar varnarlega á meðan Snæfell fór að gera heilmikið af rugli, missa boltann, lélegar sendingar, léleg skot, vörn og þær einfaldlega sofnuðu.  En það var ekki af Haukastúlkum tekin baráttan sem einkenndi liðið og voru komnar aðeins þremur stigum undir 59-56 og hreinlega tóku boltann af Snæfelli auðveldlega trekk í trekk. Snæfell áttu örfá augnablik undir lok þriðja hluta og leiddu leikinn 65-56. Allar Haukastúlkur voru með í vörn en Siarre Evans og Margrét Rósa sáu mest um skoruð stig.
 
Snæfell hélt 10 stiga forskoti fram yfir miðjan fjórða hluta en Haukastúlkur voru gott betur tilbúnar að taka slaginn ef Snæfell gæfu tommu eftir og naum forysta Snæfells fór svo niður í 77-71 en þær héldu sig betur við efnið undir lokin og náðu að klára leikinn 81-72 þó ekki hefði mátt muna miklu ef þær hefðu verið í Þyrnirósaleik í fjórða hluta líkt og þriðja. En það er mikill gangur í Haukaliðinu sem sýndu mikinn karakter og eru stígandi greinilega.
 
Snæfell: Kieraah Marlow 24/10 frák/4 stoðs. Alda Leif 18/7 frák/4 stoðs. Hildur Björg 17/5 frák. Helga Hjördís 9/4 frák. Hildur Sigurðardóttir 8/6 frák/9 stoðs. Rósa Kristín 3/3 frák. Ellen Alfa 2. Aníta Rún 0. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0.
 
Haukar: Siarre Evans 25/14 frák. Margrét Rósa 25/5 frák/4 stoðs. Gunnhildur Gunnarsdóttir 10/5 frák/3 stoðs. Lovísa Björt 3/4 frák. Jóhanna Björk 3/4 frák. Auður Íris 2. María Lind 2/3 frák. Dagbjört Samúelsdóttir 2. Sólrún Inga 0. Inga Sif 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson og Aðalsteinn Hrafnkelsson.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín