Snæfell leikur til úrslita á morgun gegn Tindastól í Lengjubikar karla eftir 99-90 sigur á Grindavík í síðari undanúrslitaviðureign keppninnar í kvöld.
 
Byrjunarlið:
Snæfell: Jón Ólafur, Asim McQueen, Sveinn Arnar, Hafþór Ingi, Jay Threatt.
Grindavík: Jóhann Árni, Aaron Broussard, Samuel Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Sigurður Gunnar.
 
Grindavík byrjaði af krafti og komust í 2-14 áður en Snæfell náði að svara nokkru en þá komu þristar frá Sveini Arnari og Pálma Frey. Jóhann Ólafsson var virkilega sprækur kominn með 10 stig. Grindavík náði að halda sig 10 stigum frá Snæfelli en Jay Threatt stjórnaði sínu liði vel og staðan eftir fyrst hluta var 22-26 og Snæfellingar aðeins að stilla sig af.
 
Snæfell komst nær 28-29 og jafnaði svo 32-32 og voru öflugir í vörninni og spiluðu hratt á Grindavík sem tóku leikhlé þegar Snæfell komst yfir 34-32. Jafnt var 42-42 og svo 47-47 en Jay Threatt og Jón Ólafur voru að leika vel fyrir Snæfell og Sigurður Þorsteins og Aaron Broussard voru að stimpla sig betur inn fyrir Grindavík. Staðan var 51-55 fyrir Grindavík í hálfleik en hjá þeim var Aaron Broussard með 14 stig og 9 fraköst en þeir voru allir með 12 stig, Jóhann Árni, Samuel Zeglinski og Sigurður Þorsteins. Í liði Snæfells var Jay Threatt með 16 stig og Jón Ólafur með 10 stig.
 
Grindavík byrjaði betur í upphafi þriðja hluta með Samuel Zeglinski í fararbroddi 51-59 en Snæfell var velvakandi, smurði vélina strax og það ringdi þristum tveimur frá Jay Threatt og einum til frá Sveini Arnari og staðan varð 60-59 fyrir Snæfell. Asim McQueen var kominn með sína fjórðu villu um miðjan þriðja hluta og var hvíldur. Jay Threatt var kominn með 22 stig þarna og Broussard 18 stig. Grindavík komst yfir 70-71 eftir að tæknivilla var dæmd á Snæfellsbekkinn. Staðan var 72-75 fyrir Grindavík en liðin voru að spila af hörku og í boði úrlitaleikurinn í Lengjubikarnum.
 
Liðin skiptust á að skora og skiptust á forystu og staðan 80-81 fyrir suðurnesjamenn um miðjan fjórða hluta þegar Jón Ólafur hjá Snæfelli fékk sína 5 villu fyrir lítið og Asim McQuenn fylgdi honum hálfri mínútu síðar og tveir miklvægir póstar komnir út hjá Snæfelli. Þorleifur Ólafs fékk reisupassann einnig en leikurinn var virkilega hressandi og rafmagnaður með 89-85 á klukkunnu fyrir Snæfell þegar 2.30 voru eftir. Snæfell komst í 93-86 þegar 43.5 sekúndur voru eftir og allt féll þeim í hendur og Snæfell sigldi sterkum lokamínútum í höfn 99-90 og leika gegn Tindastóli í úrslitaleiknum á morgun laugardag kl. 16 í Stykkishólmi.
 
Jay Thrett bauð upp á stórleik í liði Snæfells með 30 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar og þá bætti Jón Ólafur Jónsson við 12 stigum og 6 fráköstum. Sigurður Þorvaldsson lék með Snæfell í kvöld á nýjan leik og skoraði fjögur stig. Hjá Grindavík var Aaron Broussard með 22 stig og 14 fráköst, Sammy Zeglinski gerði 21 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Jóhann Árni Ólafsson bættu svo báðir við 18 stigum hjá gulum og Sigurður auk þess með 11 fráköst.
 
Mynd/ Eyþór Benediktsson
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín