Metabækur NCAA háskólakörfuboltans í Bandaríkjunum hafa verið hafðar að háði og spotti eftir að bakvörðurinn Jack Taylor gerði 138 stig fyrir Grinnell háskólann í þriðju deild NCAA. Kappinn fékk heldur betur skotleyfi og nýtti það til hins ítrasta en hann tók 108 skot í leik sem lauk 179-104 fyrir Grinnell gegn Faith Baptist skólanum.
 
Taylor setti niður 27 af, ótrúlegt en satt, 71 þriggja stiga skoti sínu í leiknum. Gamla stigametið, 113 stig, átti Bevo Francis sem hafði staðið frá árinu 1954 en aðeins einn annar leikmaður, Frank Selvy, hefur áður náð þriggja stafa tölu þegar hann skoraði 100 stig. Athyglisvert er að þessi Selvy skoraði þessi 100 stig árið 1954 í leik millum tveggja háskóla þar sem Íslendingar eru á mála, Newberry og Furman en Ægir Þór Steinarsson leikur með Newberry og Kristófer Acox verður liðsmaður Furman á næstu leiktíð.
 
Í þessum stigaleik hjá Taylor var kappinn kominn með 58 stig í hálfleik og þá rétt orðinn volgur. Þó afrekið hjá Taylor veki eftirtekt þá var einn liðsmaður Faith Baptist, David Larson, sem skoraði 70 stig fyrir sína menn en það man enginn eftir því þegar þessi leikur verður rifjaður upp, 138 punktar varpa ansi myndarlegum skugga.
 
Liðsmenn New York Knicks fengu veður af þessu afreki hjá Taylor og sagði Carmelo Anthony: ,,Ég hef aldrei heyrt annað eins, þetta er bara eins og einhver tölvuleikur. Hvernig er hægt að skjóta meira en 100 sinnum í leik? Ef einhver spyr mig aftur hvort ég hafi verið að taka of mörg skot í einhverjum leik þá bara bendi ég á Jack Taylor,” sagði Melo sem nú er kominn með hina fullkomnu afsökun fyrir þá sem fyrirlíta stoðsendingar.
 
Svipmyndir frá Jack sjóðandi Taylor