Stjarnan úr Garðabæ mættu bísperrtir í Fjósið í Borgarnesi hvar heimamenn tóku á móti þeim og sýndu þeim fullmikla gestrisni og héldu gestirnir heim með 2 stig í trússi sínu.  Það var heldur betur hoggið skarð í hóp Skallagríms í kvöld því Páll Axel sat í hvunndagsklæðum á varamannabekknum sökum meiðsla.  Þar tók hann stöðu aðstoðarþjálfara því Finnur Jónsson var í leikbanni eftir að hafa lent í orðaskaki við Jón Bender á fjölum Fjóssins fyrir skömmu. Þar að auki eru þeir Egill Egilsson og Hörður Hreiðarsson enn meiddir og ekki von á þeim aftur í liðið fyrr en á ári komandi.
 
Carlos Medlock var á eldi í upphafi leiks í liði heimamanna.  Hann gerð fyrstu 11 stig liðsins í leiknum og steig ekki feilspor í byrjun, áður en aðrir leikmenn liðsins komust á blað. Sjörnumenn höfðu þó forystuna lengst af þó munurinn væri ekki mikill.  Stjarnan leiddi að 10 mínútum liðnum 21-25.  Haminn Quiantance hóf annan leikhlutann á tröllatroðslu og við það virtust heimamenn hrökkva í góðan gír og fengu byr í seglin um stund.  Í liði gestanna var þó maður að nafni Brian Mills sem átti sannkallaðan stórleik og héldu honum engin bönd, Justin Shouse var einnig að spila vel og dældi stoðsendingum á félaga sína.  Garðbæingar voru ávallt hænufeti á undan en Borgnesingar náðu að hanga í þeim.  Í hálfleik höfðu gestirnir forystu 42-46 og var Brian Mills kominn með 20 stig í leiknum þegar gengið var til hlés
 
Í upphafi seinni hálfleiks kom Davíð Ásgeirsson mjög öflugur inn í lið Skallagríms og náði að gera Shouse lífið leitt um stund, þar að auki setti hann góðan þrist og augnablikið virtist vera að snúast heimamönnum í hag.  Mills hélt áfram að gera Fjósamönnum lífið leitt og truflaði mjaltir í hvívetna.  Haminn átti erfitt uppdráttar undir körfunni í sókninni og hélt sig að mestu utan teigs þar sem flest hans stig urðu til.  Skallarnir höfðu náð 3ja stiga forystu er leikhlutanum lauk 72-69 og útlit fyrir æsispennandi loka fjórðung líkt og tíðkast oft í Borgarnesi.  Raunin varð hins vegar allt önnur.  Stjörnumenn hreinlega völtuðu yfir gestrisna heimamenn og líkt og hendi væri veifað höfðu þeir gert 14 stig í röð og breytt stöðunni í 72-83.  Skallarnir skrouðu ekki stig í leikhlutanum fyrr en 5 mínútur lifðu leiks er þeir skoruðu úr víti.  Fyrsta karfan utan af velli kom þegar 2 mínútur voru eftir og það gengur auðvitað aldrei í nokkrum leik.  Gestirnir með þá Mills og Shouse í broddi fylkingar sigldu í höfn sanngjörnum sigri 84-98
 
Eins og áður hefur komið fram áttu þeir Justin Shouse og Brian Mills algjöran stórleik.  Shouse með 21 stig og 16 stoðsendingar og Mills með 35 stig og 14 fráköst.  Ekki bar mikið á Marvin Valdimarssyni en hann átti fínan leik og skilaði flottum tölum.  Þá átti Jovan fína innkomu.  Hjá Borgnesingum voru Haminn og Medlock mest áberandi framan af,  en heldur dró af þeim er leið á leikinn, þá sérstaklega Haminn.  Davíð Ásgeirsson nýtti aukinn spilatíma nokkuð vel og Sigmar “síungi” Egilsson sýndi gamalkunna takta í sókninni. 
 
Stjörnumenn eru feykilega vel mannað lið og munu vafalaust vera í toppbaráttunni í vetur.  Brian Mills er einn sá besti sem undirritaður hefur séð í Fjósinu í vetur og Justin Shouse skilar alltaf sinni vinnu vel.  Borgnesingar hinsvegar geta mun betur og það sást vel í leiknum í kvöld hversu mikil áhrif það hefur á liðið til lengdar að vera án svo margra fastamanna.
 
 
 
Myndir/ Ómar Örn
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson