Símon B. Hjaltalín rauk á menn í Stykkishólmi í gær og ræddi við þá að loknum undanúrslitaviðureignunum í Lengjubikar karla. Símon ræddi við Helga Rafn og Guðmund Jónsson eftir slag Tindastóls og Þórs og svo við Hafþór Inga og Jóhann Árna eftir leik Snæfells og Grindavíkur.
 
Tindastóll-Þór Þorlákshöfn
 
,,Við sýndum gríðalegan karakter í þessum leik og sýndum það líka að við höfum verið að missa dampinn svona síðustu 6-7 mínútur í leikjum en við náum að halda okkur við efnið í þær múnútur í þessum leik og náum að landa góðum sigri,” sagði Helgi Rafn hjá Tindastól eftir hörkuleik gegn Þór Þorlákshöfn sem vannst með einu stigi 82-81. ,,Bæði lið voru klikka á skotum þarna síðustu tvær mínúturnar sem var ótrúegat að sjá en sigur er sigur og leikurinn á morgun (í dag) verður bara fjör.” Grindavík eða Snæfell? ,,Skiptir engu máli hverja við leikum gegn, eigum við ekki að segja bara Snæfell,” sagði Helgi ánægður með sigurinn og reyndist þar spámaður í eigin föðurlandi.
 
Guðmundur Jónsson hjá Þór var ekki eins hrifinn af leik sinna manna. ,,Við hættum bara að spila okkar leik þegar við vorum komnir tólf stigum yfir og Tindastóll er alltof gott lið til að gefa eftir. Þeir grípa tækifærið um leið og það gefst og við slökuðum bara alltof mikið á til að koma til baka og hefðum getað stolið þessu í lokin en áttum það kannski ekki skilið miðað við frammistöðuna í leiknum.”
 
Snæfell-Grindavík
 
,,Það sýndi sig mjög vel eftir að við misstum Nonna Mæju og Asim útaf með fimm villur hvað liðsheildin var sterk hjá okkur og að fá bræðurna frá 603 Akureyri af bekknum og þá náum við að halda þeim mjög vel,” sagði Hafþór Ingi Gunnarsson hjá Snæfelli og talar þar um bræðurna Ólaf og Stefán Torfasyni. ,,Við náðum að halda þeim í mjög fáum stigum síðustu fjórar fimm mínúturnar og Jay var að spila mjög vel og það klárar leikinn. Það var svolítil yfirspenna í mönnum í byrjun, fullt hús og svona en svo er verið að spila um bikar, það er bikarleikur á morgun (í dag).” Snæfell mætir Tindastóli og verður það án efa hörkuleikur á milli landsbyggðarjötnanna. ,,Tindastóll eru líkamlega sterkir og við munum þurfa að mæta tilbúnir, tilbúnari en í dag (í gær).”
 
Jóhann Árni hjá Grindavík var vonsvikinn eftir leikinn. ,,Þetta var að mínu mati bara einn punktur í lokin þar sem við hefðum getað farið niður í tvö stig og áttum að fá villu að mínu mati en í staðinn fá þeir sniðskot og skora og komnir sex stigum yfir. Við þurfum þá að fara í að elta og brjóta sem er erfitt og við eigum ekkert að þurfa að fara í þetta að treysta á heppni í lokin. Miðað við hvernig við vorum að spila sóknarlega vitandi að þeirra tveir sterkustu menn væru komnir útaf með fimm villur snemma í fjórða hluta þá áttum við að ná að stjórna þessu betur.” Grindavík byrjaði 2-14 og voru snöggir til í upphafi þar sem Jóhann Árni setti niður 10 stig en það jafnaðist fljótt út eftur fyrsta fjórðung. ,,Það er ekkert voðalega vænlegt hérna í Stykkishólmi að vera að skiptast á körfum við þá út leikinn, við þurfum að stoppa þá og leggja allt í vörnina sem við vorum ekki að gera í dag (í gær).”
 
Símon B. Hjaltalín