LA Lakers mega enn bíða eftir sínum fyrsta sigri í NBA deildinni en liðið lá gegn Dallas í fyrsta leik og aftur í nótt þegar liðið mætti Portland á útivelli. Þrátt fyrir 63 stig frá Howard og Bryant dugði það ekki til sigurs fyrir strákana úr englaborginni. Lokatölur í Portland voru 116-106 heimamönnum í vil.
 
Byrjunarlið Portland skoraði allt 13 stig eða meira í leiknum, þeirra atkvæðamestur var Frakkinn Nicolas Batum með 26 stig og 6 fráköst. Dwight Howard var atkvæðamestur hjá Lakers með 33 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar og Kobe Bryant bætti við 30 stigum og 6 fráköstum. Brösugt gengi hjá Lakers í upphafi vertíðar og ljóst að stórstjörnurnar sem skipa liðið eiga talsverða vinnu fyrir höndum við að ganga sama taktinn.
 
Nágrannar Lakers í Clippers hófu vertíðina á öðrum nótum en þeir byrjuðu mótið á sigri gegn Memphis Grizzlies í Staples Center. Lokatölur 101-92 Clippers í vil þar sem Jamal Crawford kom með 29 stig inn af bekknum hjá Clippers. Chris Paul bætti við tvennu með 12 stig og 12 stoðsendingar. Rudy Gay var stigahæstur hjá Memphis með 25 stig og 7 fráköst en reynsluboltinn Zach Randolph bætti við 15 stigum og 16 fráköstum.
 
James Harden byrjaði svo með látum í liði Houston í nótt þegar hann setti 37 stig, gaf 12 stoðsendingar og tók 6 fráköst er Houston lagði Detroit 96-105 á útivelli. Jeremy Lin bætti við 12 stigum og 8 stoðsendingum en hjá Pistons var Brandon Knight með 15 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og Svíinn Jonas Jerebko kom af bekknum með 7 stig og 4 fráköst.
 
Úrslit næturinnar:
 
Toronto 88-90 Indiana
Philadelphia 84-75 Denver
Detroit 96-105 Houston
Chicago 93-87 Sacramento
New Orleans 95-99 San Antonio
Utah 113-94 Dallas
Phoenix 85-87 Golden State
LA Clippers 101-92 Memphis
Portland 116-106 LA Lakers
 
Svipmyndir úr leik Detroit og Houston þar sem James Harden fer á kostum:
 
Mynd/ Blake Griffin og félagar í Clippers opnuðu vertíðina með sigri gegn Memphis í nótt.