Einn leikur fór fram í NBA deildinni í nótt þar sem San Antonio Spurs tóku á móti Oklahoma City Thunder. Það kom í hlut Frakkans magnaða, Tony Parker, að vera hetja Spurs í leiknum þegar hann kláraði Durant og félaga með flautukörfu. Lokatölur 86-84 Spurs í vil.
 
Þegar 16 sekúndur voru til leiksloka jafnaði Tony Parker metin í 84-84 með þriggja stiga körfu fyrir Spurs. Oklahoma misstu boltann í næstu sókn og Spurs tóku leikhlé. Rétt eins og í fyrsta leiknum var það Parker sem átti lokaorðið þegar hann kláraði New Orleans og smellti í nótt niður teigskoti um leið og leiktíminn rann út. Parker í góðum gír þessi dægrin.
 
Tim Duncan gerði 20 stig í leiknum og tók 8 fráköst. Hann tróð m.a. með látum yfir varnarmaskínuna Ibaka sem kom engum vörnum við þrátt fyrir ,,Go go – Gadget” hendurnar sínar. Parker var með 14 stig og 11 stoðsendingar og vitaskuld sigurkörfuna. Kevin Durant gerði 23 stig, tók 14 fráköst og gaf 5 stoðsendingar hjá Oklahoma og varð þar með næstyngsti leikmaðurinn í sögu NBA til að komast í 10.000 stiga klúbbinn en þar trónir LeBron nokkur James á toppnum.
 
Þá smokraði Tim Duncan sér upp í 17. sæti yfir frákastahæstu leikmenn í sögu NBA og sló þar með Charles Barkley niður fyrir sig.