Stjarnan tók í kvöld á móti Fjölni í Lengjubikar karla í Garðabæ. Stjörnumenn höfðu fyrir leik kvöldsins unnið þrjá leiki af fjórum í Lengjubikarnum, á meðan Fjölnismenn höfðu tapað öllum sínum leikjum.
 
Bæði lið virtust ætla að gefa yngri leikmönnum spilatíma í kvöld og hvort liðið um sig stillti upp ungu byrjunarliði. Stjörnumenn tóku fljótlega forystu í leiknum sem þeir létu aldrei af hendi. Ungir leikmenn á borð við Dag Kár Jónsson, Sæmund Valdimarsson og Björn Kristjánsson komu sterkir inn í lið heimamanna sem réðu nokkuð auðveldlega við ungt, en efnilegt lið Fjölnis. Blandað saman við framlag eldri og reyndari leikmanna urðu Grafarvogspiltar nokkuð auðveld bráð fyrir liðið í öðru sæti Dominos deildarinnar, en lokatölur í Garðabæ voru 112-82.
 
Dagur Kár Jónsson var stigahæstur heimamanna með 22 stig, en Brian Mills og Sæmundur Valdimarsson bættu við 16 stigum hvor. Hjá Fjölni var Arnþór Freyr Guðmundsson stigahæstur með 15 stig, og Tómas Heiðar Tómasson skoraði 14.
 
Stjörnumenn eru nú í 2. sæti C riðils Lengjubikarsins, með fjóra sigra úr fimm leikjum, á meðan Fjölnismenn verma botnsætið án sigurs.
 
Mynd úr safni
 
EKG