Ólafur Torfason sem er betur þekktur fyrir stærð sína og gríðarlega baráttu undir körfunni átti líklega besta leik sinn fyrir utan þriggja stiga línuna í langan tíma í kvöld.  Ólafur setti þá fimm þrista niður í aðeins 7 tilraunum og var sjóðandi á lokasprettinum þar sem Snæfell nýtti sér heitar skothendur Ólafs og Nonna Mæju.  
 

Ólafur setti 16 stig í leiknum ásamt því að hirða 3 fráköst.  Ótrúlegt en satt þá er ekki eitt skot fyrir innan þriggja stiga línuna skráð á Ólaf í leiknum sem verður að teljast merkileg tölfræði fyrir mann af hans stærðargráðu.  

 

“Jú, þetta var bara svona bylgjur, vorum oft svona daufir varnarlega, lítið talandi.  Vantaði fyrirliðan og svona”, sagði Ólafur um kaflaskiptan leik við Fjölni í kvöld.  

“Maður verður bara að gefa Fjölnisliðinu það að þetta eru rosalega duglegir strákar, ungir, snöggir, rosalega fljótir upp völlinn.  Þú tekur ekkert af þessu Fjölnisliði, það er ekkert gefið hérna”.

Ólafur var ekki á því að gera mikið úr fimm þristum sínum í kvöld.

“Ef ég fæ að skjóta fyrir utan þá bara dettur þetta stundum og stundum ekki, í dag datt þetta og þá lítur þetta vel út”.  

 

Gisli@karfan.is

Mynd: Heiða –  Ólafur Torfason að berjast við Árna Ragnarsson