Einu sinni áður hafa Tindastólsmenn unnið fyrirtækjabikarkeppni KKÍ en það var árið 1999 þegar Tindastóll lagði Keflavík 80-69 í úrslitaleik keppninnar sem fram fór í Smáranum í Kópavogi. Þrír leikmenn liðsins eru enn þann dag í dag með Tindastól sem voru í Eggjabikarmeistaraliði félagsins 1999.
 
Leikmennirnir sem um ræðir eru Friðrik H. Hreinsson, Svavar Atli Birgisson og Helgi Freyr Margeirsson. Í sigurliðinu 1999 voru einnig þungavigtarmenn á borð við Sverri Þór Sverrisson þjálfara Grindavíkur og Kristinn G. Friðriksson sem í dag sést á íþróttasíðum Morgunblaðsins þegar fjallað er um körfubolta.
 
Í sigurleiknum 1999 var Shawn nokkur Myers stigahæstur Stólanna með 20 stig og 14 fráköst. Þeir Svavar Atli og Kristinn Geir bættu svo báðir við 16 stigum. Eins og kunnugt er varð Tindastóll Lengjubikarmeistari um helgina eftir sigur á Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum og svo Snæfell í úrslitum.
 
Það hefur vakið mikla athygli að Tindastóll er Lengjubikarmeistari 2012 en eru enn án stiga í Domino´s deildinni og verður forvitnilegt að fylgjast með framgöngu Skagfirðinga héðan af og sjá hvort þessi nýjasta fyrirtækjabikartign nái ekki að snúa blaðinu við hjá þeim í deildinni.
 
Mynd/ Sumarliði Ásgeirsson