Körfuknattleiksdeild UMFN hefur samið við Nigel Moore um að leika með karlaliði félagsins og lítur út fyrir að kappinn verði klár í búning á föstudag þegar Njarðvíkingar mæta KR í vesturbænum. Frá þessu er greint á heimasíðu UMFN.
 
Á heimasíðu Njarðvíkinga segir ennfremur:
 
Nigel er 31 árs gamall og er 195 cm á hæð og þykir fjölhæfur leikmaður.  Hann er reynslumikill leikmaður sem hefur leikið allan sinn atvinnumannaferil í Þýskalandi og í Finnlandi.  Hann útskrifaðist frá Alabama A&M árið 2003 og hóf sinn atvinnumannaferil hjá TV Lick í þýsku 2.deildinni.  Þar lék hann í tvö ár en Lick er systurfélag Giessen, sem Logi Gunnarsson lék með á þessum árum og æfði Nigel að hluta með Loga og félögum. 
 
Nigel færði sig svo yfir til Giessen tímabilið 2005-2006 og lék með þeim í efstu deild í Þýskalandi.  2006-2007 lék hann heima í Bandaríkjunum en árið 2007-2008 lék hann svo með Göttingen í efstu deild í Þýskalandi og þar var samherji hans Jeb nokkur Ivey sem er okkur Njarðvíkingum að góðu kunnur.  Nigel kláraði þann vetur svo í efstu deild í Finnlandi þar sem hann stóð sig mjög vel. 
 
Hann lék svo fyrri hluta tímabils 2008-2009 í Pro A í Þýskalandi en lék svo í einn og hálfan vetur heima í Bandaríkjunum aftur.  Síðustu tvö tímabil hefur hann leikið með Korihait í efstu deild í Finnlandi við góðan orðstír
 
www.umfn.is