Þór frá Þorlákshöfn náði fram hefndum eftir bikardramað í Hólminum síðustu helgi, með öruggum sigri á Tindastól í kvöld 85-101. Tindastólsmenn byrjuðu leikinn mun betur en Þórsarar náðu að jafna leikinn fyrir hlé og síðan ná heljartaki á leiknum í þriðja leikhluta sem þeir héldu til leiksloka. Fyrsti sigur Þórsara á Tindastól á þessari öld staðreynd og Tindastólsliðið er enn án sigurs í deildinni. Þetta kemur fram í grein Björns Inga Óskarssonar á tindastoll.is
 
Mikil tilhlökkun var í Skagafirði fyrir leiknum í kvöld enda Tindastólsstrákarnir nýkrýndir Lengjubikarmeistarar eftir frábæra frammistöðu síðustu helgi og það var ekki Skagfirðingur í heiminum sem var ekki handviss að í kvöld kæmi fyrsti sigur Tindastóls í deildinni.
 
Leikurinn byrjaði líka nákvæmlega þannig. Stólarnir mættu í fimmta gír og náðu fljótlega ágætis forskoti á Þórsara. Mest fór munurinn upp 32-17 þegar annar leikhluti var nýbyrjaður. En þá tóku Þórsararnir við sér og fóru hægt og bítandi að saxa á forskot heimamanna. Fremstir í flokki voru Ben Smith, David Jackson og Darri Hilmars en þeir sáu alfarið um sóknarleik gestana en þeir þrír ásamt Darryl Flake skoruðu samtals 99 stig í kvöld af 101 stigi gestanna.
 
Í hálfleik var staðan 47-45 fyrir heimamenn og margir bjuggust við æsispennandi seinni hálfleik. Það voru hins vegar Þórsarar sem mættu mun ákveðnari í seinni hálfleik en þeir héldu áfram að loka á sóknarleik heimamanna sem náðu ekki að svara varnarafbrigðum Þorlákshafnarmanna. Á sama tíma áttu Þórsarar ekkert alltof erfitt með að salla stigunum á heimamenn og munurinn jókst með hverri mínútunni.
 
Staðan þegar liðin fóru í fjórða leikhluta var 66-78 fyrir Þórsara og útlitið full skýjað fyrir heimamenn. Í fjórða leikhluta reyndu Stólarnir að keyra upp hraðann og ná snöggum körfum sem tókst af og til ágætlega. En Þórsarar voru búnir að finna rétta tóninn og Ben, David og Darri náðu að svara hverri körfu heimamanna nokkuð auðveldlega.
 
Skemmst frá því að segja að Þórsarar héldu þetta út án teljandi vandræða og keyra því ánægðir heim á Þorlákshöfn í nótt meðan Tindastóls liðið situr á botni deildarinnar með núll stig. Ljós í myrkrinu hjá Stólunum var flottur leikur hjá Ingva Ingvarssyni sem hefur verið að fá fleiri og fleiri mínútur og var meira en tilbúinn að ráðast á körfuna í kvöld.
 
Hjá Þórsurum voru fjórir leikmenn áberandi bestir eins og áður hefur komið fram. Svo góðir voru þeir að það hefði líklega dugað fyrir Þórsara að koma bara með þá fjóra norður í land og þeir hefðu samt unnið. Ætli gjaldkeri Þórsara taki það alvarlega til skoðunar í næsta útileik.
 
Næsti leikur hjá Stólunum er hinsvegar á sunnudagskvöldið á móti Snæfell í bikarkeppninni og líklega munu Snæfellingar vera ágætlega stemmdir fyrir þann leik þannig að miklar líkur eru á þrusu ævintýri í Síkinu næsta sunnudagskvöld.
 
 
Mynd úr safni – Ben Curtis setti 31 á Stólana í kvöld
Umfjöllun/ Björn Ingi – tindastoll.is