Snæfellsstúlkur tóku á móti Val í dag í Domino´s deild kvenna og voru ekki margar í liðinu, alls sjö, eftir að hafa fengið Ellen Ölfu Högnadóttir inní liðið. Berglind Gunnarsdóttir á við meiðli að etja og þrjár stúlkur úr stúlknaflokk fóru í leiki með sínum flokk og mættu KKÍ menn athuga að mjög margar stúlknaflokksstelpur spila orðið með meistaraflokki og því ótrúlegt að þessum leikjum skuli vera raðað á sama tíma.
 
Bæði lið byrjuðu skipulögð og tilbúin í leikinn. Varnarlega var Snæfell þó sterkara og sóknarmegin smelltu Rósa og Alda Leif stórum körfum niður og komust í 12-8. Alberta Auguste hjá Val var komin í vandræði og fékk sína þriðju villu sem tæknivillu og var komin á tréverkið eftir fjögurra mínútna leik. Snæfellsstúlkur voru duglegar að stela og taka fráköstin í vörninni og uppskáru að komast fljótt í 23-12.
 
Dómarar leiksins voru mjög strangir á tæknivillum eftir fyrirspurn um leikinn frá Inga Þór og fékk hann eina slíka á sig. Snæfell hélt forskoti sínu í öðrum hluta 36-23 en Valsstúlkur voru tilbúnar í að sækja í sig veðrið og Alberta komin inná. Þá kom mikil kafli hjá Snæfelli sem kom þeim í 43-23 og mikið brotið á bak aftur hjá Val sem voru að stilla sig af en Ágúst varð að taka smá tíma í spjall. Kieraah Marlow var sjóðandi og Helga Hjördís smellti stórum stigum yfir Val. Staðan 53-27 þegar ástæða þótti til skrafs og ráðagerða hjá Völsurum.
 
Ekki var að sjá að Ellen Alfa hefði einhverju gleymt og stóð sig vel en hjá Val voru þær Guðbjörg Sverrisdóttir, Alberta Auguste og Kristrún Sigrjóns sem reyndu að halda Val við efnið en staðan var erfið eða 29 stiga munur, 58-29 í hálfleik þar sem allir sjö leikmenn Snæfells voru uppi á tánum með allt á hreinu og mjög góð skotnýting.
 
Valsstúlkur reyndu hvað þær gátu og áttu góðar sóknir á kafla en varnarleikurinn var frekar daufur og þurfti mikið púður í að slaka niður um 30 stiga forskoti þar sem Snæfelli héldu engin bönd og staðan 70-45 eftir þriðja hluta.
 
Fjórði hlut var prýðilega spilaður af báðum liðum en eins og áður sagði staðan löngu orðin erfið fyrir Val að elta svona mikið forskot uppi. Leiknum lauk 88-54 í öruggum sigri Snæfells og ótrúlega lítil fyrirstaða í Valsliðinu þennan leikinn en þær eiga nokkuð mikið inni trúi ég.
 
 
Mynd úr safni/ Hildur Sigurðardóttir var atkvæðamest hjá Snæfell í dag. 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín