Í kvöld ræðst það hvaða tvö lið taka síðustu sætin í undanúrslitum Lengjubikarsins. Úrslitahelgi keppninnar fer fram í Stykkishólmi um næstu helgi en í gær tryggðu Grindavík og Snæfell sér farseðilinn í undanúrslitin.
 
Leikir kvöldsins í Lengjubikar karla, kl. 19:15 í kvöld:
 
Stjarnan-Tindastóll
Fjölnir-Breiðablik
ÍR-Valur
Þór Þorlákshöfn-Njarðvík
KR-Hamar
 
Forsvarsmenn Lengjunnar setja 1,45 í stuðul á heimamenn í Þór en 1,95 á Njarðvík. Skemmtilegur stuðull þar sem Njarðvíkingar hafa á þessari leiktíð unnið Þór í Icelandic Glacial Höllinni. Nú fyrir ykkur sem tippið á framlengingu er stuðullinn 8,35!
 
C-riðill
Stjarnan og Tindastóll leika úrslitaleik um að komast upp úr riðlinum. Tindastóll hefur enn ekki tapað í Lengjubikarnum og eru með 10 stig. Stjarnan fylgir fast á hæla þeirra með 8 stig og þurfa að vinna síðasta leikinn í Garðabæ með 16 stiga mun eða meira til að komast upp úr riðlinum. Breiðablik og Fjölnir stitja eftir.
 
D-riðill
Þór Þorlákshöfn er með 8 stig í riðlinum og dugir sigur gegn Njarðvík í síðasta leik til að komast upp úr riðlinum. Ef Þór tapar með 9 stigum eða meira nær Njarðvík innbyrðisviðureigninni á milli liðanna og kemst upp fyrir Þór. ÍR hefur hinsvegar betur innbyrðis gegn Njarðvík og mætir Val í síðasta leik. Ef ÍR vinnur og Njarðvík vinnur Þór með 9 stigum eða meira kemst ÍR upp úr riðlinum. Öllu jöfnu til að ÍR komist upp þarf Þór að tapa svo það verður forvitnilegt að fylgjast með leikjunum í D-riðli en Valsmenn sitja þó eftir.