Leikglaðir Grindvíkingar skelltu KR í Röstinni í dag þegar liðin mættust í áttundu umferð Domino´s deildar kvenna. Lokatölur 80-60 þar sem þrír leikmenn Grindavíkur skoruðu 64 af 80 stigum liðsins.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Crystal Smith, Berglind Anna Magnúsdóttir, Helga Rut Hallgrímsdóttir, Harpa Rakel Hallgrímsdóttir og Petrúnella Skúladóttir
 
Byrjunarlið KR: Helga Einarsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Patechia Hartman, Sigrún Sjöfn Ámundardóttir og Hafrún Hálfdánardóttir. 
 
KR átti erfitt upphaf í leiknum og skoruðu einungis 6 stig í fyrsta leikhluta. Grindavík var í hörku stuði og stemmingin var gífurlega í liðinu. Þær áttu leikhlutann og skoruðu 27 stig gegn 6 stigum KR-inga. Petrúnella Skúladóttir átti góðan leikhluta og skoraði 10 stig. 
 
Í öðrum leikhluta var allt annað að sjá KR liðið þrátt fyrir að þær næðu ekki að minnka muninn. Þær skoruðu 16 stig í leikhlutanum á meðan Grindavíkingar skoruðu 19 stig. Staðan eftir leikhlutan var því orðin 46-22 fyrir Grindavík. 
 
Stigahæstar í hálfleik fyrir Grindavík var Crystal Smith með 17 stig og Petrúnella Skúladóttir með 12 stig og 7 fráköst. Helga Rut Hallgrímsdóttir var með 7 stig og 8 fráköst. 
 
Fyrir KR var það Sigrún Sjöfn Ámundardóttir en hún var búin að setja niður tvo þrista í öðrum leikhluta og var því með 6 stig. Patechia Hartman og Björg Guðrún Einarsdóttir voru með 5 stig hvor. 
 
Í þriðja leikhluta voru Grindavíkurstelpur með 15 stig gegn 25 stigum KR-inga. KR var því aðeins farið að minnka muninn en hann var 16 stig eftir leikhlutann. Staðan var orðin 61-45 Grindavík í vil. 
 
Helga Einarsdóttir, leikmaður og fyrirliði KR, var flutt á brott með sjúkrabíl í þriðja leikhluta vegna verkja í kvið en hún var farin að finna fyrir þeim fyrir leik. Þrátt fyrir það spilaði hún rúmar 18 mínútur í leiknum.
 
Í fjórða leikhluta virtust Grindavíkurstelpur missa þetta aðeins niður og náðu KR stelpur að minnka muninn niður í 13 stig. En sigurinn var þó aldrei í hættu og endaði leikurinn 80-60 fyrir Grindavík. Patechia Hartman fór útaf með fimm villur þegar 6:33 voru eftir af fjórða leikhluta. 
 
Grindavík náði því að halda góðri forystu allan leikinn gegn KR þar sem þær virtust ekki tilbúnar til leiks í upphafi. En þær komu þó sterkar til baka. Grindavík náði mest 28 stiga forystu. 
 
Allt annað er að sjá lið Grindavíkur en Petrúnella Skúladóttir, Crystal Smith og Helga Rut Hallgrímsdóttir áttu allar hörkuleik fyrir Grindavík. En stigahæst var Crystal Smith með 24 stig og 6 fráköst. Petrúnella Skúladóttir var með 20 stig, 13 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Helga Rut Hallgrímsdóttir var með 20 stig og 14 fráköst. 
 
Fyrir KR var engin sem stóð upp úr en voru þær fjórar með yfir 10 stig í leiknum. Stigahæst var Björg Guðrún Einarsdóttir með 14 stig en hún tapaði boltanum 7 sinnum. Hafrún Hálfdánardóttir var með 13 stig og 7 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundardóttir með 12 stig og 10 fráköst og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með 10 stig og 6 fráköst. 
 
 
Mynd úr safni/ Petrúnella Skúladóttir fór mikinn með Grindavík í dag.
Umfjöllun/ Jenný Ósk