Hlynur Elías Bæringsson landsliðsfyrirliði Íslands í körfuknattleik er með ansi athyglisverða tilraun í gangi á Facebook um þessar mundir. Markmið kappans er að safna peningum fyrir styrktarsjóð Umhyggju sem er félag sem styður fjárhagslega við langveik börn og fjölskyldur þeirra.
 
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Hlynur:
 
,,Ég ætla að gera tilraun á Facebook, endilega takið þátt. Ég ætla að gefa landsliðstreyjuna (Sjá forsíðumynd) mína frá því í sumar til þess einstaklings sem giskar á rétt úrslit og íslenska markaskorara í leik Andorra og Íslands í fótbolta á morgun. Takmarkið er að safna peningum fyrir styrktarsjóð Umhyggju, sem er félag sem styður fjárhagslega við langveik börn og fjölskyldur þeirra, þar er alltaf þörf á peningum til að hjálpa fólki í erfiðum aðstæðum, svo erfiðum að nánast ómögulegt er að setja sig í þeirra spor.
 
Þetta er einfalt, þið skrifið comment við þessa færslu og giskið á rétt úrslit og markaskorara í þessum leik á morgun. Hvert komment kostar 1000 krónur (endilega kommentið sem oftast!) og með því skuldbindið þið ykkur til að leggja a.m.k 1000 krónur inná reikning Umhyggju. Því meira því betra.
 
Hér eru reikningsupplýsingar Umhyggju.
Reikningur: 0101-15-371020
Kennitala: 581201-2140
 
Úrslitin gilda fyrst, ef einhverjir eru með sömu úrslit, þá vinnur sá/sú sem er einnig með markaskorara rétta. Ef bæði er rétt þá verður bara dregið. Sama á við um 0-0 og t.d. 1-0 fyrir Andorra.
 
Ég hvet alla til þess að giska, óháð því hvort þeir hafa áhuga á íþróttum eða ekki. Treyjan og fótboltaleikurinn eru í raun aukaatriði. Þið getið þá fundið einhvern sem vill þessa treyju, nú eða þið eruð með frekar dýra borðtusku 🙂
 
Koma svo!”