Leikur KR og Njarðvíkur í Dominosdeild karla í kvöld var hin fínasta skemmtun. Leikurinn var opinn og hraður í byrjun þar sem varnirnar voru í algjörum aukahlutverkum. Martin Hermannsson sem hélt byrjunarliðssæti sínu frá Lengjubikarsleiknum gegn Snæfelli byrjaði með látum en fljótt fundu gestirnir taktinn. Hraður og flottur sóknarleikur Njarðvíkurpiltanna opnaði oft vörn heimamanna illilega þar sem nýr leikmaður þeirra grænu, Nigel Moore, virtist blómstra. Moore þessi er greinilega hörkuskytta og góður íþróttamaður og á eftir að nýtast Njarðvíkurliðinu vel ef marka má fyrri hálfleikinn en pilturinn var með 12 stig í hálfleik og misnotaði einungis tvö skot.
 
KR liðið virtist taktlaust þegar leið á hálfleikinn og náðu gestirnir 25-19 forskot undir lok fyrsta leikhluta en að honum loknum leiddi Njarðvík 27-23. Danero Thomas var strax kominn í villuvandræði og áttu þau vandræði eftir að fylgja honum allan leikinn. Jafnfræði var með liðunum í byrjun annars leikhluta en alltaf virtust Njarðvíkurliðið ferskara. Um miðjan leikhlutann náðu þeir góðum 4 mínútna kafla og komust yfir 43-33 með góðri körfu og víti að auki frá Hirti Hrafni. Vörnin var að smella hjá grænum og stig að koma úr öllum áttum á meðan KR liðið var ansi meðvitundarlaust. Gestirnir virtust ætla að sigla inn í hálfleik með þægilegt forskot en þá steig orkuboltinn Keagan Bell upp og smellti niður tveimur þristum á stuttum tíma auk körfu frá Finni Atla. Á tæpum 90 sekúndum hafði góð örugg forysta gufað upp og gátu Njarðvíkingar nagaði sig í handarbökin fyrir að hafa ekki haldið betur á spöðunum en þetta. Á sama tíma var þetta kærkomið orkustuð fyrir heimamenn sem voru þó undir í hálfleik 44-41.
 
Alls voru 16 leikmenn komnir á blað í fyrri hálfleik, 8 hjá hvoru liði. Hjá heimamönnum voru bræðurnir Helgi og Finnur með sitthvor 8 stigin, Keagan 6 og Brynjar og Martin 5 hvor en sá síðarnefndi náði ekki að fylgja eftir góðri byrjun. Hjá gestunum var áðurnefndur Nigel Moore með 12 stig, tröllið Marcus Van með 10 og Hjörtur 8.
 
Það var ljóst strax í upphafi að allt annað KR lið var mætt til leiks. Þeir fóru að taka mun fastar á gestunum og það flæði og léttleiki sem einkenndi þá í fyrri hálfleik laut í lægra gras fyrir krafti heimamanna. Brynjar Þór Björnsson fór að sína gamalkunna takta og kom heimamönnum yfir 48-46 með þrist en gestirnir svöruðu jafnóðum og héldu örlitlu frumkvæði. Í stöðunni 54-51 fyrir Njarðvík virtist KR lið ná ögn meiri festu í sinn leik. Danero Thomas sem var í miklum villuvandræðum kom með tvær góðar körfur og skömmum tíma var KR lið komið yfir 63-57. Óheppnin hélt áfram að elta Thomas því hann fékk sína fjórðu villu skömmu síðar er hann féll í jörðina eftir baráttu við Hjört Hrafn og rann undir Elvar Má sem var í þriggja stiga skoti og Davíð Hreiðarsson gat ekki annað en dæmt villu. Elvar setti öll vítin niður og staðan 63-60 þegar 2 og hálf mínúta lifðu af leikhlutanum. Við tók afskaplega dapur kafli í leiknum þar sem liðin virtust keppast um að gera fleiri mistök. Svo fór að vítin sem Elvar hafði sett niður urðu síðustu stig leikhlutans. Staðan 63-60 fyrir KR en þessi slaki kafli reyndist þó vera bara lognið á undan storminum.
 
Heimamenn leiddir áfram af Brynjar Þór og frábærri liðsvörn hreinlega skelltu í lás í fjórða leikhlutanum þar sem Njarðvíkingar komust hvorki lönd né strönd. KR liðið náði því trekk í trekk hröðum sóknum en þær enduðu oftar en ekki með galopnum skotum fyrir Brynjar eða Helga Má. Nigel Moore sem leit mjög vel út í fyrri hálfleik var gjörsamlega týndur og þó Marcus Van splæsti í eitt tröllatroð eftir sóknarfrákast þá kom lítið frá honum. Njarðvíkingar skoruðu ekki í heilar 5 mínútur og það leikhlutinn voru heimamenn komnir með 12 stiga forskot og allur vindur úr þeim grænu. Heimamenn sigldu svo ótrúlega öruggum sigri í höfn miðað við hvernig fyrstu þrír leikhlutarnir spiluðust. Lokatölur 87-70 þar sem Brynjar Þór Björnsson var maður leiksins með 22 stig og 11 fráköst.
 
Njarðvík átti góðan fyrri hálfleik og hefur alla burði til að spila hörkukörfubolta en um leið og KR-ingar fóru að taka fastar á þeim þá áttu þeir fá svör. Elvar Már Friðriksson var þeirra besti maður heilt yfir en það er ljóst að Nigel Moore á eftir að reynast liðinu þegar hann mun komast betur inní leik liðsins og sleppir því að fara í feluleik. KR liðið vann frákastabaráttuna örugglega og var það einn lykillinn að sigri þeirra. Brynjar Þór Björnsson virðist vera að vakna til lífsins eftir rólega byrjun í vetur en annars var það góð liðsheild og varnarleikur í fjórða leikhluta sem var lykillinn að sigri liðsins. Sex leikmenn liðsins voru um og yfir 10 stigin í leiknum en Danero Thomas skoraði 10 stig á þeim 16 mínútum sem hann náði að spila áður en hann fékk 5 villuna. Ungu strákarnir Martin og Kristófer Acox eru enn og aftur að reynast liðinu dýrmætir en íþróttamennska þess síðarnefnda er af öðrum heimi.
 
Eftir leik kvöldsins eru KR-ingar í 4-8. sæti með 6 stig en eiga leik til góða gegn Þór Þorlákshöfn á útivelli en sá leikur verður spilaður á miðvikudaginn næsta. Njarðvík situr í 11. sæti með einn sigur í fyrstu 6 leikjunum en þeir hafa ekki náð að láta góða spilamennsku í haust skila sigrum. Næsta viðureign Njarðvíkingar er heimaleikur gegn KFÍ sem situr í 10. sæti ásamt ÍR og er þar því á ferðinni mikilvægur leikur í neðri hluta deildarinnar