Síðustu daga höfum við spurt í könnun hér á Karfan.is hvernig fólk vilji hafa keppnisfyrirkomulagið í Domino´s deild karla. Valkostirnir voru fjórir, óbreytt, þreföld umferð, fjórföld umferð og annað. Þátttakendur voru næstum 700 talsins og kusu flestir óbreytt keppnisfyrirkomulag en sá valmöguleiki fékk 284 atkvæði af 677.
 
Þreföld umferð fékk 223 atkvæði, fjórföld umferð fékk 142 atkvæði og valkosturinn annað fékk 28 atkvæði. Í heildina voru það því 393 af 677 sem vildu sjá breytingu á keppnisfyrirkomulaginu.
 
Stærsti hluti þátttakenda vill breytt keppnisfyrirkomulag en eins og áður kemur fram er valkosturinn óbreytt keppnisfyrirkomulag sem fær flest atkvæði. Óbreytt keppnisfyrirkomulag er þá eins og í dag, 12 lið, 22 leikir í deild á lið og úrslitakeppni fyrir átta efstu liðin að deildarkeppni lokinni.
 
Töluverð umræða hefur skapast um tímasetninguna á Lengjubikarnum og hafa margir fundið tíma keppninnar allt til foráttu en hún var m.a. viðleitni hreyfingarinnar til að koma til móts við kvartanir félaganna vegna langs tíma sem leið á milli leikja. Vandratað er greinilega að hafa alla sátta og ljóst að þetta mál verður vísast tekið fyrir á þingi strax að þessari leiktíð lokinni.
 
Nú höfum við sett inn nýja könnun og að þessu sinni spyrjum við:
Er of mikið af þriggja stiga skotum í íslenskum körfuknattleik?