Það fór lítið fyrir spennu í leik toppliðs Keflavíkur og meistara Njarðvíkurstúlkna í Dominosdeild kvenna í kvöld þegar þær fyrrnefndu rúlluðu í 30 stiga sigur.  84:54 lokastaða leiksins heimastúlkur í Keflavík í vil og þær eru áfram ósigraðar í deildinni eftir 11 umferðir en Njarðvík situr í næst neðsta sæti með 3 sigra úr 11 leikjum.
 
 Leikurinn hófst fjörlega og virtust Njarðvíkurstúlkur ætla að selja sig dýrt þetta kvöldið.  Liðin skiptust á því að skora og jafnt var á öllum tölum framan af. Strax í öðrum fjóðrung fór þó að skilja á milli í stigaskorun og Keflavíkurstúlkur tóku öll völd á vellinum.  Það var lítið að gerast hjá Njarðvíkurstúlkum á þessum tíma og í hálfleik leiddu heimastúlkur með 21 stigi, 48:27. 
 
Það breytist lítið í seinni hálfleik þar sem heimastúlkur bættu bara í og héldu áfram að þjarma að meisturunum.  Lítið var um svör frá Njarðvík gegn góðum leik Keflavíkur sem líta óneitanlega vel út þessa daganna.   Það virtist vanta alla kókómjólk í Njarðvíkurliðið að þessu sinni þær voru alls ekki að spila vel og höfðu litla trú á verkefninu. Lele Hardy var þeirra líflegust og barðist af krafti en henni skorti aðstoð frá sínum með spilurum.  En gegn Keflavík á heimavelli í þeim ham sem þær voru í gær er kannski lítið hægt að gera. 
 
Fjórði leikhluti var einungis formsatriði að klára og sigur Keflavíkur aldrei í hættu.  Varla er hægt að taka eina út úr liði Keflavíkur og velja mann leiksins því liðsheildin var að skila sínu þetta kvöldið. Lele Hardy var enn og aftur í sérflokki hjá Njarðvík og það var þá helst Salbjörg Sævarsdóttir sem lét til sín taka einnig í liði UMFN:  Aðrar þurfa að spíta í lófana og spila betur en þær gerðu þetta kvöldið. 
 
 
 
VIðtöl við Lele Hardy og Ingunn Emblu er hægt að sjá á Karfan TV.