Í kvöld tóku Keflavíkurmenn á móti Fjölni í Domino’s deild karla. Leikurinn byrjaði nokkuð jafn og stefndi allt í jafnan og spennandi leik en í seinni hálfleik tóku heimamenn leikinn í sínar hendur og unnu auðveldlega, 91-69. Darrel Lewis splæsti í eina risa tvennu fyrir Keflavík 22 stig og 16 fráköst , þar af 9 sóknarfráköst. Michael Graion vildi líka vera með og henti niður 25 stigum og reif niður 10 fráköst. Frábær leikur hjá þessum köppum. Hjá Fjölni var Sylverster Spicer einnig með tvennu, 17 stig og 10 fráköst og Árni Ragnarson endaði með 18 stig og 9 fráköst.
 
Fyrsti leikhlutinn einkenndist af miklum hraða og miklu “kontakti” sem dómarar létu ekki pirra síg og leyfðu leiknum að fljóta aðeins fyrstu mínúturnar. Jafnræði var með liðunum í leikhlutanum og ef miðað yrði við þessar mínútur þá ætti leikurinn að vera frábær skemmtun fyrir áhorfendur allt fram að síðustu mínútum leiksins. Snertingarnar sem dómarar voru að leyfa í vörninni voru þó farnar að pirra leikmenn aðeins undir lokin og eftir einn slíkan pirring fékk Maggi Gunn tæknivillu fyrir að kvarta yfir því að hafa ekki fengið villu. Christopher Matthews fór á línuna og jafnaði leikinn 19-19. Leikhlutinn endaði 23-21 fyrir Keflavík þar sem Darrel Lewis var fremstur í flokki heimamanna og kominn með 10 stig. Hjá Fjölni var Árni Ragnarssón kominn með 6 stig sem og Tómas Tómasson.
 
Áfram hélt hraðinn og jafnræði liðanna í öðrum leikhluta. Keflavík voru duglegir í sóknarfráköstunum en voru ekki alveg að ná að klára færi sín á upphafsmínútum leikhlutns. Þá var Fjölnir að sækja betur að körfunni og eftir að hafa leyst pressu heimamanna eins og ekkert væri treður Sylverster Spicer með látum og kemur gestunum yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 29-30. Á þessum tíma er Fjölnir að spila frábæra vörn sem fær Keflavík til að taka ótímabær skot. Þegar rúmar þrjár mínútur eru eftir af fyrri hálfleik tekur Maggi Gunn leikinn í sínar hendur fyrir heimamenn. Fyrst sendir hann frábæra sendingu á Lewis nánast yfir allan völlinn sem grípur boltann í loftinu, leggur boltann ofan í netið og fær villu að auki. Lewis setur vítið ofan í og kemur heimamönnum aftur yfir 37-34. Stuttu seinna setur Maggi niður flottan þrist, fiskar ruðning síðan í vörninni og þar á eftir villu sem sendir hann á línuna þar sem hann sallar báðum vítunum ofaní. Heimamenn því á 8-0 “rönni” með Magga í fararbroddi og staðan orðin 42-34. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 46-40 fyrir heimamenn. Lewis var kominn með myndarlega tvennu strax í fyrri hálfleik 19 stig og 12 fráköst, Fjölnir réðu ekkert við drenginn á fyrstu 20 mínútunum. Michael Graion bætti síðan 14 stigum við fyrir heimamenn. Hjá Fjölni var Spicer kominn með 11 stig og þeir Árni og Tómas með 8 stig hvor.
 
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, hefur greinilega sagt nokkur vel valin orð við sína menn í hálfleik því þeir komu inn í þriðja leikhlutann með þvílíka baráttu og átti Fjölnir ekki í roð við þá í leikhlutanum. Það virtist sem að heimamenn tækju hvert frákastið á fætur öðru á báðum endum vallarins. Heimamenn byrja leikhlutann á því að ná 8-0 “rönni” og við það tekur Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, leikhlé og messar vel yfir sínum mönnum. Í kjölfarið kemur fyrsta karfa gestanna í leiklutanum og staðan orðin 54-42. Keflavik heldur áfram að þjarma að gestum sínum sem skora aðeins 9 stig í leikhlutanum og heimamenn komnir með góða forystu fyrir síðasta leikhlutann, 70-49. Hjá heimamönnum var Lewis kominn með 22 stig og Graion með 20 stig. Þá var Spicer kominn með 13 stig fyrir gestina og Árni 12 stig.
 
Heimamenn halda áfram að auka bilið milli sín og Fjölnis í upphafi fjórða leikhlutans. Þeir ná 14-0 “rönni” þar sem þeir fóru úr stöðunni 60-49 í 74-49 og leit út á tímum eins og þeir léku sér að Fjölnismönnum, greinilega ekki þeirra dagur í dag. Matthews fær sína fimmtu villu þegar aðeins mínúta var liðin af leikhlutanum og var það ekki að hjálpa til fyrir gestina. Barátta heimamanna var frábær í alla staði og var hún farin að fara aðeins í pirrurnar hjá Fjölni sem endaði með því að Spicer fékk tæknivillu fyrir vel valin orð til dómaranna. Um miðjan leikhlutann voru bæði lið farin að hleypa sínum ungu strákum á parketið og sýndu þeir nokkra fína takta. Eitt flottasta “múv” leiksins átti Elvar Sigurðson hjá Fjölni þegar hann keyrir að körfunni, framkvæmir nokkrar vel valdar hreyfingar, og leggur hann ofan í. Gestirnir reyndu að klóra í bakkann í lokin en hann var bara allt of langt í burtu. Leikurinn endaði síðan 91-69 fyrir Keflavík sem áttu þennan sigur svo sannarlega skilið. Frábær barátta í seinni hálfleik skilaði þeim þessum sigri og þess má geta þá unnu heimamenn frákasta-baráttun 62-45 og var Keflavík með 24 sóknarfráköst.
 
 
Mynd úr safni
Umfjöllun/ rannveig@karfan.is