Haukar og Keflavík mættust í Schenkerhöllinni í 16 liða úrslitum kvenna í Poweradebikarnum í dag. Leikurinn var mjög jafn og spennandi en Keflavík reyndist sterkari á lokakaflanum og fór með góðan 84-89 sigur.
 
Byrjunarlið Hauka: Lovísa Henningsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
 
Byrjunarlið Keflavíkur: Sara Rún Hinriksdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Ingunn Embla Kristínardóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir og Jessica Ann Jenkins.
 
Bæði lið mættu mjög einbeitt til leiks og var hart barist frá fyrstu mínútu. Keflavík spilaði sína hefðbundnu pressu- og svæðisvörn og ætlaði að láta finna vel fyrir sér. Haukar voru greinilega búnar að gera ráð fyrir því og létu Keflavík ekkert slá sig útaf laginu og leystu vel úr vörn þeirra. Keflavík skorðuð fyrstu 2 stig leiksins en eftir það komust Haukar yfir og héldu þeirri stöðu út fyrsta leikhlutann. Illa gekk hjá Keflavík að skora í opnum leik og settu þær einungis fjögur skot niður í leikhlutanum en héldu sér inn í leiknum á vítaskotum. Fyrsti leikhlutinn endaði skemmtilega þegar illa gekk hjá Haukum að komast í gegnum sterka vörn Keflavíkur og neyddist Auður Íris Ólafsdóttir að taka neyðar þriggjastigaskot, þar sem að skotklukkan var að renna út, sem þótti ekki líklegt til árangurs en small engu að síður í netinu við mikinn fögnuð Haukabekkjarins.
 
Í öðrum leikhluta héldu Haukar uppteknum hætti og voru yfir allan leikhlutann. Mest komust þær átta stigum yfir en Keflavík var þó aldrei langt á eftir og komu sterkar til baka og voru aðeins einu stigi undir í hálfleik eftir að Pálína smellti þrist í loka sókn Keflavíkur.
 
Keflavík komst heldur betur á skrið í þriðja leikhlutanum og fór Jessica Ann Jenkins þar mikinn og skoraði hún 17 stig, þar af fimm þriggja stiga. Ingunn Embla Kristínardóttir bætti við tveimur sjálf og komst Keflavík mest 10 stigum yfir í leikhlutanum. Það rigndi ekki bara hjá Keflavík og svöruðu Haukar með fjórum þristum, Siarre Evans með einn og Margrét Rósa Hálfdanardóttir með þrjá, og minnkuðu muninn niður í þrjú stig. Þriðji leikhlutinn var því algjör stórskota sýning og endaði að sjálfsögðu með því að liðin settu niður sitt hvorn þristinn.
 
Jenkins hóf svo fjórða leikhlutann á því að setja niður enn einn þristinn og voru Keflavík með yfirhöndina það sem eftir lifði leiks. Haukar voru þó aldrei langt undan og var leikhlutinn gríðarlega spennandi og gat allt gerst þegar það voru rétt rúmar tvær mínútur eftir af leiknum og Haukar minnkuðu muninn í tvo stig í stöðunni 79-81, eftir góða syrpu hjá Margréti Rósu þar sem að hún setti niður tvö víti, stal boltanum af Pálínu og gaf stoðsendingu á Lovísu Björt Henningsdóttur. Þá sagði hins vegar Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir stopp og skoraði sjö af átta loka stigum Keflavíkur og gerði endanlega út um vonir Hauka.
Keflavík eru því komnar í 8 liða úrslit Powerade bikarsins eftir góðan 84-89 baráttu sigur gegn Haukum.
 
Stigahæstar hjá Haukum: Margrét Rósa Hálfdanardóttir 23 stig/5 fráköst, Siarre Evans 17 stig/20 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 15 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar.
 
Stigahæstar hjá Keflavík: Jessica Ann Jenkins 24 stig (þar af 6 þriggjastiga)/6 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 19 stig/4 fráköst/4 stoðsendingar, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 16 stig/4 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 15 stig/8 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Sara Rún Hinriksdóttir 4 stig/13 fráköst/7 stoðsendingar.
 
Leikmaður leiksins: Jessica Ann Jenkins og Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir.
 
 
 
Mynd/ emil@karfan.is
Umfjöllun/ K. Bergmann