Sjálfur Ólafur Ólafsson verður mættur í búning með Grindvíkingum annað kvöld þegar Íslandsmeistararnir taka á móti Haukum í Lengjubikar karla. Ólafur er kominn með grænt ljós frá lækni sínum en eins og flestir muna eflaust eftir meiddist Ólafur illa í síðustu úrslitakeppni þegar Stjarnan og Grindavík áttust við í Garðabæ.
 
Ólafur kvaðst í samtali við Karfan.is vera afar spenntur fyrir því að mæta aftur inn á parketið:
 
,,Ég lofa engum háloftafimleikum á morgun, ég ætla bara að sjá hvernig ökklinn tekur við sér í svona leikaðstæðum,” sagði Ólafur við Karfan.is í kvöld.
 
,,Já ég er bara svolítið spenntur, það var eitthvað að koma yfir mig rét tí þessu. Fór að hugsa að ég væri að fara að spila minn fyrsta leik á morgun í einhverja sex mánuði og ég hef ekki fengið þennan fiðring lengi.”