Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, var ánægður með margt við leik sinna manna í kvöld og svekktur með úrslit kvöldsins.  Fjölnir spilaði flottan sóknarleik, skoraði 95 stig með 64% nýtingu í tveggja stiga skotum en það dugði ekki til.  Snæfell hitti einfaldlega betur og þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna.   

 

“Þeir byrja af rosa krafti og við svona eins og við séum svolítið þungir, Við vorum ekki alveg í takt við þetta, sérstaklega varnarlega í upphafi.  Síðan fórum við aðeins að loka í vörninni og fórum taka aðeins betur á þeim.  Þá fór þetta að ganga aðeins betur hjá okkur.  Síðan hittu þeir bara nánast öllu”. 

 

Leikurinn var mjög kaflaskiptur og áttu bæði liðin virkilega góðar rispur en á móti áttu þau nokkuð slæma kafla.  

 

“Ég veit ekki hvað það var til að byrja með, hvort menn ætluðu sér of mikið eða hvort menn voru yfir gíraðir.  Við komum bara hálf flatir inní þetta en menn náðu sér svo á strik.  Það var bara erfitt að reyna að ná þessu upp, það tók fullt af orku.  Ég held að það hafi aðallega verið málið.  Kannski róteraði ég ekki bekknum nóg en mér fannst við spila ágætlega á köflum en svo fannst mér þeir hitta alveg svakalega í lokin”.  

 

Hjalti, sem þekkir nokkuð til Ólafs Torfasonar hjá Snæfell var jafn hissa og aðrir á framgöngu hans í leiknum.

“Ég hef aldrei séð þetta áður frá Óla, þekki hann nú ágætlega en hef aldrei séð þetta áður.  Þetta er ný hlið á honum”.  

 

Gisli@karfan.is

Mynd: nonni@karfan.is – Úr myndasafni