Haukar áttu ekki í teljandi vandræðum með Augnablik í kvöld þegar liðin mættust í Kórnum í 1. deild karla. Augnablik náði að halda í við Hauka á fyrstu mínútum leiksins en um miðjan fyrsta leikhluta tóku Haukar forustu sem þeir létu aldrei af hendi.
 
Liðin skiptust á körfum í upphafi fyrsta leikhluta og var ljóst að Augnablik ætluðu sér að veita Haukum harða keppni. Augnabliksmenn spiluðu svæðisvörn sem Haukar áttu í þó nokkru basli með í upphafi en voru þó duglegir að finna Hauk Óskarsson sem sallaði niður sjö af fyrstu 12 stigum Hauka. Heimamenn komust yfir 18-14 eftir tvær myndarlegar þriggja stiga körfur frá Leifi Árnasyni en það er mesti munur sem Augnablik náði í leiknum. Haukar kláruðu leikhlutann í pressuvörn og skilaði það þeim 11 stiga forystu þegar leikhlutanum var lokið, 22-33
 
Haukar bættu bara í í öðrum leikhluta og juku forskot sitt til muna. 20 stig skildu liðin fljótlega af en Haukar héldu áfram að pressa stíft og Augnablik átti í mesta basli með pressuvörnina. Heimamenn náðu þó að nýta sér „ofur ákafa“ Haukanna í vörninni og refsuðu með auðveldum stigum. Haukar leiddu með 18 stigum í hálfleik 39-57.
 
Augnabliksmenn byrjuðu seinni hálfleik eins og upphaf leiksins og skoruðu nokkrar auðveldar körfur. Haukar héldu áfram að pressa og færðu vörnina ofar á völlinn sem skilaði þeim en og aftur auðveldum körfum og stærri mun. Haukar buðu upp á sýningu í leikhlutanum þar sem Aaryon Williams átti tvær stór myndalegar troðslur en það varð þó ekki til að slökkva í heimamönnum sem minnkuðu muninn úr 30 stigum niður í 20 rétt fyrir lok leikhlutans og honum lauk að lokum með 24 stiga forskoti Hauka, 63-87.
 
Eftirleikurinn var Haukum ekki erfiður. Haukar nýttu alla leikmenn sína og héldu Augnabliki í þægilegri fjarlægð en Augnabliksmenn sýndu þó flotta takta og voru ekkert að leifa Haukum að stinga sig neitt af. Leikurinn endaði með öruggum 18 stiga sigri Hauka, 85,103, og var sigurinn aldrei í hættu eftir miðjan fyrsta leikhluta.
 
Stigahæstur Hauka var Aaryon Williams með 34 stig og 14 fráköst og Haukur Óskarsson var með 19 stig. Emil Barja var með 15 stig, 11 stoðsendingar og 6 fráköst.
 
Hjá Augnablik var Leifur Árnason allt í öllu með 29 stig og 7 og Helgi Þorláksson var með 17 stig 10 stoðsendingar.

Myndasafn úr leiknum