Botnliðin Grindavík og Haukar mættust í sjöttu umferð Dominosdeildar kvenna í dag þegar Grindavík fengu Hauka í heimsókn þar sem að Haukar sigruðu 79-78 í jöfnum leik með gríðarlega spennandi loka mínútum.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Crystal Smith, Berglind Anna Magnúsdóttir, Helga Rut Hallgrímsdóttir, Harpa Rakel Hallgrímsdóttir og Petrúnella Skúladóttir.
 
Byrjunarlið Hauka: Auður Íris Ólafsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans
 
Haukar virðast hafa farið í alvarlega naflaskoðun eftir dræm úrslit í undanförnum leikjum og var Auður Íris mætt í byrjunarliðið til að koma upp með boltann í stað Margrétar Rósu sem hefur gegnt því hlutverki í byrjunarliðinu sem af er vetri, en við það týnst algjörlega í sókninni. Einnig var aðalmál á dagskrá að sækja duglega að körfunni sem þær gerðu strax í upphafi leiks.
Grindavík voru ekki alveg nógu vakandi í vörninni og komust Haukar oft auðveldlega að körfunni í opin sniðskot og voru Grindavík í rauninni heppnar að vera einungis fjórum stigum undir, 18-22, eftir fyrsta leikhlutann, því að Haukastúlkur nýttu illa öll þessu opnu sniðskot. Einnig hélt Petrúnella þeim inn í leiknum með því að setja þrjá þrista í leikhlutanum.
 
Annar leikhlutinn var mjög svipaður og sá fyrsti, Grindavík byrjaði ekki vel og var einungis Crystal Smith að sjá um stigaskorunina í fyrri hluta leikhlutans. Leikur Hauka hélst hins vegar mjög svipaður. Það var svo um miðjan leikhlutann sem að Jóhanna Rún Styrmisdóttir kom inná og kom hún með fínan neista í sóknarleik Grindavíkur og setti 5 stig á stuttum tíma. Grindavík vann leikhlutann með tveimur stigum og staðan því 38-40 fyrir Hauka í hálfleik.
 
Haukar byrjuðu þriðja leikhlutann mjög illa og gáfu Grindvíkingum tvær þriggjastiga sóknir í röð með því að brjóta klaufalega á þeim í tvígang þegar þær voru komnar í auðveld sniðskot. Grindavík lét ekki þar við sitja og hélt áfram að gefa í og algjörlega yfirspiluðu Hauka í 13-0 kafla. Þá tók Margrét Rósa til sinna ráða og ef hún skoraði ekki þá átti hún stoðsendingu í 10-0 kafla Hauka sem kom þeim aftur yfir, þó bara um eitt stig. Eftir það varð leikurinn mjög jafn og skiptust liðin á forustunni það sem eftir lifði leikhlutans og endaði hann 59-58 Grindavík í vil.
 
Grindavík komu sér sjö stigum yfir, 71-64, eftir rúmar þrjár mínútur í fjórða leikhlutanum og var allt með þeim. Eftir það kom mikill baráttu kafli hjá báðum liðum þar sem lítið gekk sóknarlega. Hægt og rólega settu Haukar niður körfur og komu sér yfir í stöðunni 71-72.
Leikurinn var svo æsispennandi á loka mínútunum. Haukar voru 78-77 yfir þegar 24 sek. eru eftir en Auður Íris brýtur klaufalega af sér í baráttunni um sóknarfrákast og Grindavík komið í bónus. Petrúnella fór á línuna en klúðraði fyrra skotinu. Hún setti þó seinna skotið og staðan 78-78. Haukar ætluðu sér að eiga lokaskot leiksins og Siarre Evans lét tímann líða niður og keyrði svo að körfunni þar sem að Helga Rut var aðeins of sein fyrir og fær dæmda á sig hindrun þegar 4 sek. eru eftir. Evans fór á línuna en eins og Petrúnella á undan henni klúðrar hún fyrra skotinu en setur seinna. Grindavík voru búin með leikhléin sín en þeim tókst að komast upp völlinn og ná ágætis þriggjastigaskoti en það féll ekki með þeim.
 
Stigahæstar hjá Grindavík: Crystal Smith 22 stig/7 fráköst/8 stoðsendingar/4 stolnir boltar, Petrúnella Skúladóttir 21 stig/8 fráköst/3 varin skot, Berglind Anna Magnúsdóttir 16 stig.
 
Stigahæstar hjá Haukum: Margrét Rósa Hálfdanardóttir 21 stig/6 fráköst/6 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Siarre Evans 16 stig/15 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 16 stig/6 fráköst.
 
Leikmaður leiksins: Margrét Rósa Hálfdanardóttir.
 
 
Umfjöllun: K. Bergmann