Haukum tókst loksins að vinna sinn fyrsta heimaleik í Dominosdeild kvenna í ár þegar þær tóku á móti Njarðvík í Schenkerhöllinni í 9. umferð í kvöld. Leikurinn varð ansi hreint spennandi í fjórða leikhluta en Haukum tókst að klára leikinn og unnu 72-63. Ekki endurkoman sem Svava Ósk Stefánsdóttir var að vonast eftir en hún átti þó ágætisleik engu síður.
 
Byrjunarlið Hauka: Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Ína Salome Sturludóttir, Dagbjört Samúelsdóttir og Siarre Evans.
 
Byrjunarlið Njarðvíkur: Eyrún Líf Sigurðardóttir, Ásdís Vala Freysdóttir, Salbjörg Sævarsdóttir, Lele Hardy og Guðlaug Björt Júlíusdóttir.
 
Leikurinn byrjaði brösulega hjá báðum liðum og var mikið um misheppnuð skot og tapaða bolta. Fyrstu stig leiksins komu ekki fyrr en eftir rétt rúmar tvær mínútur. Þá tóku við algjörir yfirburðir hjá Haukum þar sem að þær yfirspiluðu Njarðvík 16-4 og skoraði Evans meðal annars tvær þriggjastigakörfur á hálfri mínútu. Það tók svo Njarðvík einungis hálfa mínútu að tvöfalda stiga skorið sitt undir lok leikhlutans en hann endaði svo eins og hann byrjaði, stiga laus seinustu tæpu tvær mínúturnar.
 
Haukar hófu annan leikhlutann af krafti og skoruðu 15 stig gegn 5 stigum Njarðvíkur á fyrstu sex mínútunum og komust mest 17 stigum yfir. Njarðvík voru ekki að spila vel en tókst þó laga stöðuna áður en leikhlutanum lauk og var staðan því í hálfleik 32-21.
 
Í þriðja leikhluta tók Hardy til sinna ráða og átti hreint magnaða leikhluta með 12 stig, 5 fráköst, 2 stolna bolta og 3 varin skot. Hún meira að segja endaði leikhlutann á því að fara völlinn endann á milli með einungis 4 sek. eftir og skoraði með sniðskoti. Þessi frammistaða kom Njarðvík inn í leikinn og munurinn einungis 6 stig.
 
Njarðvík hélt áfram að síga á Hauka og var munurinn minnst 1 stig þegar einungis þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum og gat allt gerst. En þá tóku Margrét Rósa og Evans til sinna ráða í sókninni og skoruðu 11 af næstu 12 stigum Hauka, þar af var Evans með tvo þrista, og vörnin skellti í lás og Njarðvík náði bara í þrjú stig og öll af vítalínunni.
 
Stigahæstar hjá Haukum: Siarre Evans 21 stig (5 þristar)/19 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 20 stig (þrjú “and1”)/5 fráköst/4 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 17 stig/11 fráköst/4 stoðsendingar.
 
Stigahæstar hjá Njarðvík: Lele Hardy 21 stig/14 fráköst/5 stolnir boltar/4 varin skot, Salbjörg Sævarsdóttir 15 stig/15 fráköst/5 varin skot, Svava Ósk Stefánsdóttir 9 stig/8 fráköst.
 
Leikmaður leiksins: Siarre Evans
 
 
Mynd/ Úr safni – Siarre Evans átti mjög góðan leik í kvöld
Umfjöllun/ K. Bergmann