Njarðvík og Grindavík mættust í gær í afar mikilvægum leik í Ljónagryfjunni. Grindavík hafa verið að spila vel í undanförnum leikjum og verið að koma sterkar inn eftir þjálfaraskipti. Ágætis fjöldi áhorfenda voru mættir til að styðja sín lið og var hvatt allan leikinn beggja megin.
 
Grindavík byrjaði leikinn mun betur og komust í 14-26 og var Crystal Smith allt í öllu hjá þeim gulklæddu á þessum tímapunkti. Njarðvíkurstelpur neituðu hinsvegar að gefast upp og spýttu í lófana og náðu góðu áhlaupi og minnkuð muninn niður í 3 stig áður en hálfleiksbjallan gall 25-28 gestunum í vil.
 
Njarðvíkingar komu ögn sterkari inn eftir hlé og komust í 44-38 en þeir sem þekkja þennan fagra leik vita að þetta er leikur áhlaupa og með einu slíku náðu Grindavík að jafna 49-49 og gerðu enn betur þegar staðan var orðinn 49-58 og allt leit út fyrir að Njarðvíkurstelpur myndu gefast upp en þá kom enn eitt áhlaupið og nú Njarðvíkurmegin þar sem þær skoruðu nokkrar góðar körfur og jöfnuðu leikinn 60-60 þegar 2mín voru eftir. Þá byrjaði svakalegur kafli þar sem dramatíkin var ríkjandi, í stöðunni 62-62 setur Erna Hákonardóttir risaþrist og kemur Njarðvík þrem stigum yfir þegar 24 sek eru eftir. Grindavík fer í sókn og þegar 10 sek eru eftir átti Crystal Smith þriggja stiga tilraun sem geigaði og boltinn útaf og Njarðvík átti innkastið undir eigin körfu þegar tæpar 9 sek eru eftir.
 
Grindavík ná að stela boltanum ólöglega að mati Njarðvíkinga þar sem þeim fannst verið farið harkalega í sinn mann en dómarar leiksins sáu ekkert áhugavert við það og Crystal Smith fer upp í þriggjastigaskot þegar 4 sek eru eftir og brotið á henni. Smith var svellköld og smellti öllum beint ofaní og náði að jafna leikinn. Enn dramatíkin var rétt að byrja hér í venjulegum leiktíma. Njarðvík voru búnar með leikhléin þannig þær áttu innkast aftur undir eigin körfu, náðu að senda boltann yfir völlinn þar sem Erna Hákonar fékk opið skot sem geigaði en varð svo fyrir því óláni að að brjóta á Helgu Hallgrímsdóttir um leið og flautan gall, Njarðvík vildu meina að leiktíminn hafi verið búinn en villan stóð og Grindavík komnar í bónus þannig að Helga gat klárað leikinn en sem betur fer fyrir grænklæddu þá klikkaði hún úr báðum skotunum og framlenging staðreynd. En Grindavíkurstelpur komu sterkari inn í framlenginguna og lönduðu risa sigri á Njarðvíkurstelpum 72-79. Þeir sem mættu á völlinn fengu frábæran leik og hvatningin var frábær hjá báðum liðum og mikil stemmning eins og á að vera á öllum leikjum.
 
Bestar í liði Njarðvíkur voru LeLe Hardy með 35 stig 25 fráköst og 5 stoðsendingar og Salbjörg Sævarsdóttir með 11 stig og 12 fráköst.
?Hjá Grindavík voru þær Crystal Smith 37 stig og 12 fráköst og 7 stolna og Petrúnella Skúladóttir með 20 stig og 13 fráköst einnig átti Helga Hallgrímsdóttir fínan leik með 12 stig og 11 fráköst.
 
 
Mynd úr safni/ Petrúnella hafði betur með Grindavík gegn Njarðvík í gær
Umfjöllun/ AMG