FSu-liðið vann Augnablik í Iðu sl. föstudagskvöld, 94-86, í fjórðu umferð 1. deildar karla og kom sér þar með upp að hlið Hauka um miðja deildina. Segja má að heimaliðið hafi með þrautseigju marið fram 8 stiga sigur, enda voru gestirnir komnir til þess að vinna og ekkert annað og lögðu sig alla fram í því skyni.
 
 
Eins og þjálfari liðsins orðar það í viðtali hér á Karfan.is þá er Augnablik „bumbuboltalið“ sem æfir tvisvar í viku og fæstir leikmennirnir eru á „léttasta skeiði“. Þetta eru þó menn á besta aldri sem hafa flestir æft frá barnæsku og kunna því grunnþætti íþróttarinnar út og inn. Þá kunnáttu nýttu þeir oft sér út í hörgul og buðu upp á skemmtilegar fléttur í sókninni. Lengst af pökkuðu þeir í gamalkunna svæðisvörn og Iðu-mönnum gekk iðulega brösulega að finna réttu lausnirnar. Það fór svo að Augnablik vann tvo leikhluta af fjórum, annan fjórðung 22-26 og þann síðasta 27-28. FSu hélt velli með því að gera betur í fyrsta og þriðja fjórðung, en þá hluta vann liðið vann 21-15 og 24-17. Staðan í hálfleik var 43-41.
 
FSu-liðið saknaði aðalleikstjórnandans, Daða Berg Grétarssonar, sem er meiddur og það var því hinn ungi Daníel Kolbeinsson sem fékk það ábyrgðarhlutverk í fyrsta skipti að stjórna leik liðsins. Stundum hefði Danni mátt dreifa boltanum betur gegn svæðisvörninni, en hann fékk mikilvæga reynslu og svona á heildina litið komst hann þokkalega frá sínu, gaf t.d 6 stoðsendingar, þó hann sæi ekki í vörninni alltaf við gamalreyndum refum eins og Helga H. Þorlákssyni og Birki Guðlaugssyni.
 
Ari Gylfason bar uppi sóknarleik heimamanna, eins og fyrri daginn, með 31 stig og átti í heildina mjög fínan leik. Hann var duglegur að sækja á körfuna og sótti margar villur, eins og 17 vítaskot bera gott vitni, þó vítanýtingin hjá honum sé að jafnaði mun betri (12/17). Ari var líka með 9 fráköst 5 stoðsendingar, 11 fiskaðar villur og 28 framlagsstig, ekki dónalegar tölur þetta. Svavar Ingi Stefánsson spilaði sinn besta leik hingað til og skilaði 17 stigum og 20 í framlag. Hann er mjög að sækja í sig veðrið inni í teig, með heil 10 fráköst, og með auknum styrk og þroska verður hann illviðráðanlegur, því hann getur skotið boltanum hvaðan sem er í húsinu. Matt Brunell átti góða kafla, sýndi þá mátt sinn og megin, en lenti stundum í óþarfa ógöngum og hefði við þær aðstæður mátt hafa augun betur hjá sér. Matt setti 19 stig og bæti við 10 fráköstum, 4 stoðsendingum og 25 framlagsstigum. Þegar liðið nær betra flæði í sóknarleikinn verður hann erfiður ljár í þúfu. Arnþór Tryggvason kom gríðaröflugur af bekknum og lét til sín taka í fráköstunum, skorði 8 stig, flest eftir sóknarfráköst. Hallmar Hallsson skoraði 7 stig og skreytti þau með 5 stoðsendingum, Hjálmur Hjálmsson, sem alltaf veldur töluverðum usla í röðum andstæðinganna með magnaðri baráttu, og Gísli Gautason skoruðu 4 stig, Daníel og Bjarki Gylfason 2 stig.
 
Hjá gestunum var Jónas Ólason beittastur með 26 stig (5/9 í þristum) og 5 stoðsendingar. Leifur Steinn Árnason fylgdi fast á hæla honum með 18 stig og Trausti Jóhannsson, sem greinilega kunni vel við sig á gamalkunnum körfuboltaslóðum á Selfossi, skoraði 16 stig og hitti úr öllum 6 tveggja stiga skotum sínum. Helgi Þorláks. stjórnaði liðinu eins og sannur herforingi, með 10 stig og 5 stoðsendingar, fyrrnefndur Birkir og Sigurður Davidsen 6 stig en Kristján Friðriksson og Hlynur Þór Auðunsson 2 stig hvor.
 
Leikurinn var í öruggum höndum dómaranna Eggerts Þórs Aðalsteinssonar og Ingvars Þórs Jóhannssonar.
 
  
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
Mynd/ Hermann Snorri