Skagamenn í 1. deild sendu í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir lýsa óánægju sinni með niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar KKÍ um að vísa frá kæru ÍA vegna ólöglegs leikmanns í herbúðum FSu þegar liðin mættust í 1. deild. Karfan.is náði tali af Friðriki Inga Rúnarssyni framkvæmdastjóra KKÍ sem sagði vissulega brotalamir á þessum málum en einbeittur vilji væri fyrir því að hafa alla við sama borð.
 
,,Það var ein af betrumbótum okkar sem gerðar voru á þessum félagaskiptamálum að tryggja að enginn fengi að spila nema að fengnu atvinnu- og dvalarleyfi. Það er viðbót við annað sem þarf til að erlendir leikmenn fái leikheimild. KKÍ fékk ekki afrit af þeim gögnum sem FSu fékk frá Útlendingastofnun fyrr en að leiknum var lokið, eða í næstu vinnuviku á eftir þar sem leikurinn fór fram á föstudagskvöldi. Því miður gerðist það að Útlendingastofnun áttaði sig ekki strax á því að um íþróttamann væri að ræða fyrr en of seint en sá háttur er hafður á að Útlendingastofnun sendir samhliða á viðkomandi félag sem er að sækja um þessi leyfi og skrifstofu KKÍ. Þarna voru um mannleg mistök að ræða. FSu hefur greinilega talið að þar með væri leikmaðurinn kominn með leikheimild en eiga hins vegar að vita að leikheimild kemur frá skrifstofu KKÍ. Í kjölfarið skerptum við á þessu til þeirra félaga sem hafa verið að taka inn leikmenn á undanförnum dögum og vikum að staðfesting á leikheimild verður að berast frá skrifstofu KKÍ.”
 
Friðrik segir að vilji KKÍ sé sá að félagsskipti leikmanna verði einungis mögulega á vinnutíma: ,,Það er að segja að hægt verði aðeins að ganga frá svona málum á virkum dögum á skrifstofutíma. Þannig yrði enn eitt skrefið tekið í þá átt að hafa alla við sama borð þegar kemur að félagaskiptum, það getur nefnilega boðið hættunni heim þegar verið er að veita leikheimildir utan hefðbundins skrifstofutíma þó vissulega það geti komið og hefur komið félögum vel í gegnum árin. Þetta þekkist hins vegar hvergi annars staðar,” sagði Friðrik.
 
,,Varðandi úrskurð aga- og úrskurðarnefndar þá barst kæra ÍA of seint og af þeim sökum, í núgildandi reglum sambandsins sem kjörbærir fulltrúar félaganna samþykkja, eru hendur aga- og úrskurðarnefndarinnar bundnar,” sagði Friðrik en segist skilja gremju forráðamanna ÍA þar sem þeir áttuðu sig ekki á því fyrr en of seint að FSu hafi notað leikmann án leikheimildar og því erfitt að sætta sig við úrskurðinn sem slíkan. Friðrik benti jafnframt á að það er í höndum þingfulltrúa að breyta regluverkinu ef vilji er til þess að hafa engan frest í málum sem þessum eins og Hannibal formaður ÍA bendir á.
 
Friðrik nefndi einnig að hann hefði átt gott samtal við Hannibal formann ÍA um þetta mál og því tengdu og á milli þeirra hefði ríkt góður skilningur á hlið hvors annars og þeir væru sammála um ýmsar leiðir sem hægt væri að fara til að koma í veg fyrir að svona hlutir endurtaki sig. Í sumum tilfellum þarf breytingar á lögum og reglum og það væri í höndum Hannibals og kollega hans á næsta þingi að koma því til leiðar.
 
,,Þetta mál er til að læra af og það er skýr vilji starfsmanna KKÍ og allra aðildarfélaga að hafa hlutina í lagi og að því verður áfram unnið. Jafnt á yfir alla að ganga,” sagði Friðrik að lokum.