Valur tók á móti Fjölni í 10. umferð Dominosdeildar kvenna í Vodafonehöllinni í kvöld. Leikurinn var gríðarlega skemmtilegur og spennandi nánast allan tímann og engu líkara en að úrslitakeppnin væri byrjuð, svo hátt var spennustigið. Valur varð að lúta í lægra haldi gegn grimmum Fjölnisstúlkum, 79-83.
 
Byrjunarlið Vals: Guðbjörg Sverrisdóttir, Alberta Auguste, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og María Björnsdóttir.
 
Byrjunarlið Fjölnis: Hrund Jóhannsdóttir, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir, Fanney Lind Guðmundsdóttir, Bergdís Ragnarsdóttir og Britney Jones.
 
Leikurinn byrjaði hnífjafn og liðin skiptust á forustu. Þó varð smá þema í gangi, í hvert sinn sem Fjölnir virtist vera komast í gírinn þá skoraði Valur þriggja stiga körfu og stöðvaði flæðið hjá Fjölni, fyrst Kristrún Sigurjónsdóttir svo Guðbjörg Sverrisdóttir. Eftir það tók Valur, eða ég ætti frekar að segja Ragnheiður Benónísdóttir, leikinn í sínar hendur og skoraði 8 stig í röð og hirti 2 fráköst. Valur leiddi því eftir fyrsta leikhlutann 21-17.
 
Kristrún hóf annan leikhlutann á því að smella þrist í andlitið á Fjölni og koma Valstúlkum 7 stigum yfir. Hefði mátt halda að þarna væri Valur að fara í fluggírinn en Fjölnisstúlkur voru alls ekki á því að leyfa þeim það. Á tæpri einni og hálfri mínútu skoraði Fjölnir 7-0 og jafnaði leikinn. Valur svaraði því með 5-0 sem Fjölnir svaraði svo með eigin 5-0 áhlaupi. Britney Jones átti skemmtilegan flautuþrist um miðbik leikhlutans þegar skotklukkan rann út í einni sókn Fjölnis. Liðin skiptust svo á forustu það sem eftir lifði hálfleiksins þar sem hver sókn var mikil barátta. Enduðu Fjölnir á að vera eini stigi yfir í hálfleik, eða 40-41.
 
Þriðji leikhlutinn hófst á sama hátt og sá annar endaði, gríðarlega jafn og spennandi með baráttuna í fyrirrúmi. Þó var Fjölnir með yfirhöndina en Valur passaði uppá að þær kæmust aldrei of langt frá þeim og héldu sér alltaf inní leiknum. Á 27. mínútu leiksins neyddist Ágúst Jensson til að taka Fanneyju Lind útaf í tvær og hálfa mínútu, til að róa hana aðeins niður, og forða henni frá tæknivillu sem hún var mjög nálægt að fá dæmda á sig eftir að hafa verið ósátt við villudóm gegn sér og svo fyrir að hafa skrefað í næstu sókn á eftir þar sem að hún var vægast sagt ekki ánægð með sjálfa sig. Á meðan að Fanney hvíldi sig setti Britney niður annan flautuþrist þegar skotklukkan rann aftur út hjá Fjölni og kom þeim átta stigum yfir.
 
Fjölnir hélt áfram að leiða leikinn en Valur hélt sér sem áður fyrr inn í honum og fór að bera við smá taugatitrings innan herbúða Fjölnis þar sem þeim var ekki að takast að hrista Val af sér. Einnig fór Valsvörnin í gang og fór að gera Fjölni erfitt fyrir í sókninni ásamt því að þær fóru að pressa þær hátt á vellinum. Þó skellti hin þindarlausa Britney Fjölni á sínar herðar og hljóp í gegnum hverja pressuvörnina á fætur annari og safnaði villum á Val ef hún hitti ekki úr sniðskotum sínum. Á 39. mínútu kom gríðarleg reynsla Kristrúnar sér vel fyrir Val þegar hún skoraði þriggjastigakörfu, stal boltanum og setti annan þrist niður og minnkaði muninn í tvö stig, 77-79, með 38 sek. eftir af leiknum. Á þessum tímapunkti var leikurinn algjörlega í járnum og gat sigurinn dottið hvoru meginn sem var. Britney misnotar skot í næstu sókn Fjölnis og Valur sækir með 26 sek. eftir. Þá verður Guðbjörg fyrir því óláni að detta um eigin fætur og Britney stelur af henni boltanum og skorar auðveldlega. Hlutirnir líta ágætlega út fyrir Fjölni en þá brýtur Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir kjánalega á Kristrúnu í þriggjastigaskoti og kemur henni á línuna með einungis 16 sek eftir af leiknum. Kristrún misnotar eitt vítið og neyðist Valur því til að brjóta strax. Britney skorar úr báðum sýnum vítaskotum og kemur Fjölni í 79-83. Fjölnir spilaði skynsama vörn og komst hjá því að brjóta á Val og tryggði sér því sætan sigur.
 
Stigahæstar hjá Val: Kristrún Sigurjónsdóttir 21 stig/6 fráköst, Alberta Auguste 17 stig/5 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 15 stig/4 fráköst/8 stoðsendingar, Ragnheiður Benónísdóttir 9 stig/10 fráköst/3 varin skot.
 
Stigahæstar hjá Fjölni: Britney Jones 40 stig/7 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Bergdís Ragnarsdóttir 19 stig/11 fráköst/3 varin skot, Fanney Lind Guðmundsdóttir 15 stig/6 fráköst.
 
Leikmaður leiksins: Britney Jones
 
 
 
Mynd/ tomasz@karfan.is – Fjölnisstúlkur voru mjög kátar með sigurinn
Umfjöllun/ K. Bergmann