Njarðvík og Stjarnan eigast við í Ljónagryfjunni í kvöld þegar fimmta umferð Domino´s deildar karla rúllar af stað. Stjörnumenn mæta án Fannars Freys Helgasonar og Njarðvíkingar verða þá án Ólafs Helga Jónssonar.
 
Fannar missti einnig af leiknum gegn Tindastól á dögunum en Garðbæingar vonast til þess að hann verði tilbúinn í slaginn í næstu viku. Ólafur Helgi á hinn bóginn snéri sig á ökkla í Lengjubikarnum gegn Þór Þorlákshöfn og verður ekki með í kvöld og missir líklegast einnig af næsta leik.
  
Sigurjón Örn Lárusson snýr aftur í leikmannahóp Stjörnunnar og mun allur vera að hressast þessi dægrin eftir meiðsli.