Tindastóll leikur á morgun til úrslita í Lengjubikarnum eftir 81-82 sigur á Þór Þorlákshöfn í fyrri undanúrslitaviðureign kvöldsins í Stykkishólmi.
 
Byrjunarliðin.
Tindastóll: Drew Gibson, Helgi Freyr, George Valentine, Helgi Rafn, Ingvi Rafn.
Þór: Ben Smith, Guðmundur Jónsson, Darrel Flake, Darri Hilmarsson, David Jackson.
 
Fyrrri undanúrslitaleikur í Lengjubikarnum var á milli Þórs frá Þorlákshöfn og Tindastóls og opnaði Ingvi Rafn á þrist fyrir Tindastól. Leikurinn hófst með ágætis tilþrifum en eftir að Valentine hafði troðið smellti Jackson þrist fyrir Þór og jafnaði 5-5. Þórsarar tóku þá stökk og keyrðu hratt á Tindastóll sem voru hikandi í sóknum sínum og komust 6-14 með auðveldum sniðskotum.
 
Pétur Rúnar gaf Tindastóll von um betri tíð eftir leikhlé með þremur og Tindastóll jafnaði 16-16 en George Valentine hjá þeim var kominn með 10 stig og var öflugur. Staðan eftir fyrsta hluta var 16-22 fyrir Þór þar sem Darrel Flake var með 10 stig einnig.
 
Þór komst í 18-28 á meðan Tindastóll hitti illa. Norðanmenn spýttu í lófana og komust yfir 35-30 með háloftatroðslu Valentine þar sem Þórsarar hættu að spila vörn eftir að vera komnir þetta 10 stigum yfir en Tindastóll voru að taka hvern boltann úr höndum Þórs. Eftir leikhlé og spjall löguðu Þórsarar stöðuna töluvert úr 37-32 í 39-38 sem var staðan í hálfleik. Valentine var ansi heitur kominn með 16 stig fyrir Tindastól en Darrel Flake svaraði því með 16 stigum fyrir Þór.
 
Tindastóll komst nú í nett bílstjórasæti 47-40 og 52-43 en Þór náði þeim 52-51 með góðri vörn þar sem þristar frá Guðmundi og Darra kveiktu neistann en oft voru skot þeirra að geiga og voru komnir með 4/20 í þristum. Helgi Freyr og Sigtryggur Arnar sáu til þess með baráttu að Tindastóll héldi forystu eftir þriðja hluta 66-63.
 
Valentine sem hafði verið að spila vel fyrir Tindastól var í háloftasýningum svo fór um salinn. En það þurfti meira til að stoppa Þór sem komust yfir 72-73 en þá komu tveir þristar frá Helga Frey og Þresti Leó sem gaf Tindastól 78-73 forystu og leikurinn þrælskemmtilegur. Tindastóll leiddi naumt 82-81 þegar tvær mínútur voru eftir og þannig var staðan enn þegar 3 sekúndur lifðu. Drew Gibson fór á línuna og klikkaði úr báðum og Þór var með boltann en klikkuðu agalega á innkasti og Tindastóll tók sigur á dramatískum lokasekúndum 82-81.
 
George Valentine gerði 24 stig og tók 12 fráköst í liði Stólanna. Drew Gibson bætti svo við 17 stigum, 6 fráköstum og 13 stoðsendingum. Helgi Margeirsson gerði svo 11 stig og tók 4 fráköst.
 
Hjá Þór var Darrell Flake með 22 stig og 12 fráköst og þeir Ben Smith og Guðmundur Jónsson bættu báðir við 16 stigum og Smith var auk þess með 11 stoðsendingar.
 
Mynd/ Eyþór Benediktsson
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
 
(Nú stendur yfir viðureign Snæfells og Grindavíkur en það lið sem hefur sigur í leiknum mætir Tindastól á morgun í úrslitaleik keppninnar)