Í nótt fóru tíu leikir fram í NBA deildinni. LA Clippers lögðu NBA meistara Miami Heat í Staples Center og Memphis Grizzlies gerðu góða ferð til Oklahoma og höfðu betur gegn Durant og félögum og lönduðu þar með sínum sjötta deildarsigri í röð!

LA Clippers 107-100 Miami Heat
Fimm leikmenn Clippers gerðu 12 stig eða meira í leiknum og þeirra atkvæðamestur var Jamal Crawford af bekknum með 22 stig. Félagarnir Blake Griffin og Chris Paul mættu svo báðir með tvennur, Paul með 16 stig og 10 stoðsendingar og Griffin með 20 stig og 14 fráköst. Hjá Heat var LeBron James stigahæstur með 30 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar. Það vildi lítið niður hjá Wade í leiknum, 2 af 10 í teignum og endaði hann með sex stig á rúmum 29 mínútum.
 
Oklahoma 97-107 Memphis
Rudy Gay var með 28 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar í sigurliði Grizzlies og Zach Randolph bætti við tvennu með 20 stig og 11 fráköst. Hjá Oklahoma var Kevin Durant með 34 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar og Russell Westbrook lét ekki sína tvennu eftir liggja með 17 stig og 13 fráköst. Kendrick Perkins og Zach Randolph fengu svo að fjúka út úr húsi en þeir kappar elduðu saman grátt silfur allan leikinn og dómararnir höfðu að lokum ekki þolinmæði fyrir pissukeppninni og hentu þeim út.
 
Önnur úrslit næturinnar:
 
Philadelphia 76-94 Detroit
Boston 98-93 Utah
Milwaukee 99-85 Indiana
Houston 100-96 New Orleans
Minnesota 87-89 Charlotte
Dallas 107-101 Washington
Phoenix 106-112 Chicago
Golden State 92-88 Atlanta
 
Mynd/ Rudy Gay og Grizzlies hafa unnið sex leiki í röð í NBA deildinni og eru funheitir um þessar mundir.