Grindavík skellti sér á topp Domino´s deildar karla í kvöld með þremur öðrum liðum er liðið lagði KR 80-87 í DHL Höllinni. Menn léku stíft en leikurinn var jafn og spennandi þó vissulega hafi maður séð meiri myndarbrag á þessum risum. Aaron Broussard og Sammy Zeglinski reyndust KR-ingum erfiðir og Grindavík kunni betur við sig á lokasprettinum. KR gerði heiðarlega tilraun á lokasprettinum til að jafna metin en það hafðist ekki að þessu sinni.
 
Grindvíkingar voru sprækari framan af leik, komust í 10-19 en þá hristi Helgi Magnússon upp í sínum mönnum og röndóttir náðu að jafna metin í 22-22 og þannig stóðu leikar eftir fyrstu tíu mínúturnar. Helgi reyndist Grindvíkingum erfiður þennan fyrsta leikhluta en það var svo Kristófer Acox sem fór að hrella gestina í öðrum hluta.
 
Kristófer splæsti í nokkur ansi myndarleg háloftatilþrif sem undir flestum kringumstæðum hefðu verið vel til þess fallin að hrinda af stað myndarlegu áhlaupi en Grindvíkingar skeyttu engu um tilþrifin og voru ávallt með litla forystu. Meistarar Grindavíkur áttu lokaorðið í fyrri hálfleik, Jóhann Árni Ólafsson sýndi gamalkunna Holtsgötutakta og skellti niður þrist og breytti stöðunni í 40-44 og Sammy Zeglinski mátti ekki minni maður vera og lokaði hálfleiknum með öðrum þrist og Grindvíkingar leiddu því 41-47 í leikhléi.
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson átti sterkar rispur í fyrri hálfleik með 12 stig og Broussard var með 13. Hjá KR var Helgi Magnússon með 10 stig sem og Kristófer Acox
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og fékk drjúga hvíld eftir það. Framan af leikhlutanum var nokkuð jafnt á með liðunum en Zeglinski og Broussard voru eitthvað sem KR átti fá svör við og um leið og vörn heimamanna rétt drap niður hælunum var þeim refsað og Grindavík leiddi 57-68 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Munurinn hefði eflaust getað verið meiri ef Broussard hefði ekki boðið upp á Shaq frammistöðu á vítalínunni en þessi ágæti atvinnumaður bauð upp á 7 af 15 í vítum eða 47% nýtingu svo jaðrar við að menn fari að rifja upp Pettinella-villurnar.
 
Kristófer Acox var að öðrum ólöstuðum einn sterkasti maður KR í kvöld en hvíldi töluvert undir lok þriðja leikhluta og í byrjun fjórða leikhluta. Kristófer mætti þó aftur til leiks í þann mund sem Grindavík jók muninn í tíu stig, 65-75 og fátt sem benti til þess að heimamenn ættu eitthvað erindi í gestina.
 
Þegar tvær mínútur voru til leiksloka var staðan 69-80 og flestir sem bjuggust við að öruggur sigur væri í höfn hjá Grindavík en þá bitu heimamenn frá sér en það var of seint og Grindvíkingar einfaldlega með of sterkan hóp til að missa tökin á svona leik. Lokatölur því 80-87 eins og áður greinir.
 
Kristófer Acox gerði 15 stig og tók 12 fráköst í liði KR í kvöld. Kappinn átti góðan dag með KR og sýndi nokkur glæsileg tilþrif enda háloftafugl af bestu gerð hér á ferðinni. Helgi Már Magnússon spilandi þjálfari liðsins var stigahæstur með 20 stig og 8 fráköst.
 
Hjá Grindavík gerðu þeir Broussard og Zeglinski saman 50 stig, Broussard með 27 stig og 6 fráköst og Zeglinski með 23 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.
 
 
 
Myndir og umfjöllun/ jon@karfan.is