Hólmarar verða án Berglindar Gunnarsdóttur næstu 3-6 vikurnar eða svo vegna meiðsla. Berglind fór á dögunum úr axlarlið í leik gegn Grindavík og hefur lítið spilað eftir það. Þungt högg fyrir Snæfell en Berglind hefur verið með 11,3 stig og 4,3 fráköst að meðaltali í leik það sem af er tímabili.
 
,,Ég hef verið að fara smá í og úr lið eftir þetta en hitti lækni í vikunni og hann talaði um hvíld í 3-6 vikur,” sagði Berlgind í samtali við Karfan.is í kvöld. Í versta falli verður Snæfell án Berglindar næstu 6 vikur.
 
,,Þetta er óþolandi, ég er búin að vera í meiðslum síðan ég man eftir mér og við erum ekki það margar í hópnum að liðið megi við þessu. Ég tek bara þessar vikur sem ég þarf í hvíld og kem sterk til baka,” sagði Berglind en er ekki lag núna fyrir aðra og yngri leikmenn að taka við keflinu?
 
,,Jú, það kemur alltaf maður í manns stað og aðrir sem stíga upp þegar meiðsli dúkka upp í hópnum. Ég styð stelpurnar af bekknum og ætla að vera þar í eins stuttan tíma eins og ég kemst upp með.”