Tindastólsmenn sýndu beint frá viðureign sinni og Keflavíkur í Domino´s deild karla í gærkvöldi. Þar var hinn góðkunni Kári Marísson við stjórnartaumana og ræddi hann við Bárð þjálfara Tindastóls í leikslok en Stólarnir hafa nú tapað fimm fyrstu deildarleikjunum sínum þetta tímabilið.
 
Hér á eftir fara stiklur úr viðtali Kára við Bárð á Tindastóll TV:
 
,,Leikurinn þróaðist ekki nægilega vel, við erum fimm stigum yfir þarna á kafla en missum leikinn frá okkur í lokin þegar mér fannst við vera með töglin og hagldirnar,” sagði Bárður við Kára.
 
,,Mislukkaðar sóknaraðgerðir okkar voru dýrar og frá byrjun leiks vorum við mikið að tapa boltanum, endum með einhverja 19 tapaða bolta svo við vorum ekki nægilega vandaðir og ,,aggressívir.” Við þurfum að færa velgengnina úr Lengjubikarnum yfir í deildina en maður er bara svekktur yfir því hvernig þessi leikur fór, við þurfum einfaldlega að herða okkur.”
 
Mynd/ Hjalti Árnason: Bárður fer yfir málin með Tindastólsmönnum.